„Með erindi þessu vil ég beina þeirri áskorun til kínverska sendiráðsins, að það selji fasteign sína að Víðimel 29, sem nú hefur staðið auð í eitt ár. Greinarhöfundur, sem hefur undanfarna áratugi búið að Reynimel 28, en bakhliðar þessara húsa snúa saman, hefur haft þá vafasömu ánægju að hafa haft daglega fyrir augunum vanhirðuna á garði sendiráðsins, sem er tilefni áskorunar þessarar." Þetta skrifar Jónas Haraldsson, lögfræðingur og íbúi að Reynimel í aðsendri grein í Morgunblaðinu í dag.

Sendiráð Kína að Víðimel 29.
Sendiráð Kína að Víðimel 29.
© Hörður Kristjánsson (VB MYND/ HKR)

Í grein sinni rekur Jónas sögu sendiráðsins að Víðimel og segir ennfremur: „Á fyrstu starfsárum sendiráðsins gat verið skondið að fylgjast með tilburðum starfsmanna sendiráðsins með frumstæð verkfæri við sláttinn og með sendiherrann í broddi fylkingar, klæddir á þeim tíma í sinn Maóklæðnað. Meir var þá ekki gert í garðinum varðandi hirðu hans, né heldur síðar, nema einu sinni. Eftir því sem áratugirnir liðu og Kínverjar kynntust eða tengdust meir og meir vestrænum siðum og háttum, þá hélt maður í einfeldni sinni, að umgengni þeirra við umhverfið og umhverfisvitund myndi þá eitthvað lagast. Það hefur ekki gerst á þessum áratugum, nema klæðaburður og fas sendiráðsfólksins hefur breyst og orðið vestrænna."

Jónas segir síðan að vanhirðan á garðinum hafi alla tíð verið starfsmönnum sendiráðsins á hverjum tíma til vansæmdar og furðar sig á því hversvegna ekki hafi nokkurn tímann verið ráðinn garðyrkjumaður til að sjá um garðinn þar sem sendiráð séu andlit þjóðar sinnar út á við í viðkomandi landi.

Hann bendir síðan á að húsið sé nú búið að standa autt í yfir eitt ár síðan kínverska sendiráðið flutti í Bríetartún 1 í fyrrasumar og segir glugga standa opna, ketti skríða inn og út um kjallaraglugga og að húsið liggi undir skemmdum: „Þar sem húsið mun með sama framhaldi grotna niður og ástand garðsins orðið skelfilegt, eins og menn geta séð með eigin augum, þá ítreka ég þá áskorun mína, að húsið verið nú selt. Þá helst einhverjum Íslendingi, sem hefði bæði áhuga á og fjárhagslega getu til að koma húsinu í upphaflegt stand og sýna því þann sóma sem því ber og jafnframt hirða um garðinn."