Ríkisstjórnin hyggst skera niður í rekstrarútgjöldum og færa til tekjur og spara þannig 24 milljarða króna, samkvæmt tillögum hennar við aðra umræðu fjárlagafrumvarpsins.

Er bæði um að ræða hagræðingu í núverandi rekstri og frestun verkefna sem ekki eru komin til framkvæmda, að því er fram kemur í tilkynningu frá forsætisráðuneytinu.

Tekjuskattur hækkar um 1 prósentustig auk heimildar til hækkunar á útsvari. „Með þessum og fleiri aðgerðum mun halli ríkissjóðs verða 165 – 170 milljarðar króna en hefði að óbreyttu geta orðið u.þ.b. 215 milljarðar," segir í tilkynningunni.

Hlutfallslega verður mesti samdráttur rekstargjalda í utanríkisþjónustunni, segir í tilkynningunni, og hjá æðstu stjórn ríkisins en almennt verður samdráttur í rekstri ráðuneyta á bilinu 5-7%.