Heimsfaraldurinn hefur komið verulega illa við rekstur Icelandair á síðustu vikum. Millilandaflug liggur nánast niðri og flýgur félagið nú einungis um eitt flug á dag sem hefur leitt til þess að lausafjárstaða félagsins hefur versnað til muna. Markaðsvirði Icelandair Group stóð í rúmlega 18 milljörðum króna við lokun markaða á fimmtudag og hefur lækkað um 28 milljarða frá 20. febrúar eða um 60%.

Þann 6. apríl síðastliðinn greindi Icelandair svo frá því að félagið hafði ráðið Kviku banka, Íslandsbanka og Landsbankann sem ráðgjafa við að styrka fjármagnsskipan félagsins til langs tíma. Í tilkynningu vegna þessa sagði að vinnan miðaði að því að lausafjárstaða að meðtöldum óádregnum lánalínum færi ekki undir 200 milljónir dollara (29 milljarða króna) á hverjum tíma.  Enn fremur kom fram að í dag sé staðan enn vel yfir því viðmiði.

Alltof hár launakostnaður

Öll vinnan snýst nú um að hagræða í rekstri félagsins svo mest sem unnt er. Samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins hefur þegar verið rætt við stærstu hluthafa félagsins um að koma með aukið eigið fé í reksturinn. Miðar vinnan að því að ekki þurfi að koma til þess að ríkið stígi inn í og komi félaginu til bjargar.

Þó talað hafi verið um að bankarnir þrír yrðu til ráðgjafar um það hvernig tryggja megi lausafjárstöðu félagsins til langs tíma er miklu frekar um endurskipulagningu félagsins að ræða og þá niðurskurð. Lengi hefur legið fyrir að hlutfall launakostnaðar hjá Icelandair er alltof hátt. Bæði flugmenn og flugliðar eru á mjög háu tímakaupi samanborið við samkeppnisaðilana, sem þýðir að nú mun verða reynt að endursemja um launakjörin. Hefur Viðskiptablaðið heimildir fyrir að laun flugliða hjá Icelandair hafi verið allt 35% hærri en flugliða hjá Wow á sínum tíma og að laun flugmanna hafi verið 20 til 30% hærri.

Flugflotinn skorinn niður

Heimildir Viðskiptablaðsins herma ennfremur að verið sé að skoða að skera flugflotann verulega niður en hann telur í dag um 30 farþegaþotur. Hefur viðskiptablaðið heyrt að til greina komi að minnka flotann um meira en helming, jafnvel allt niður í 12 vélar.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér