Skörp lækkun varð á dægurverð á 95 oktana bensíni í Rotterdam í gær en í lok dags kostaði tonnið 998 dali, sem er lækkun um 40 dali eða tæp 4% á milli daga. Þá lækkaði dægurverð á dísel um 15,25 dali/tonn á sama markaði. Lækkunin helst í hendur við lækkun á heimsmarkaðsverði á olíu en tunnan af hráolíu af Brentsvæðinu lækkaði um 2 dali í gær og kostaði 113,06 dali í lok viðskipta og tunnan af WTI-hráolíu lækkaði um 24 sent og kostaði 105,2 dali. Framvirkir samningar með bensín (RBOB) lækkuðu einnig í gær og fór verð á bandarísku galloni niður fyrir 3 dali.

Olíuráðherra Sádí-Arabíu tilkynnti í gær að landið hefði framleiðslugetu upp á 3,5 milljónir tunna á dag gerist þess þörf og má að sögn BBC rekja verðlækkun að einhverju leyti til þess. Verð á WTI-olíu hélt áfram að lækka í Asíu í nótt og fór það niður fyrir 105 dali en verð á Brent-olíu hækkaði um 2 sent.