„Við horfum meðal annars til hugmyndafræði straumlínustjórnunar (e. lean management) sem snýst um að hámarka virði með því að útrýma sóun og laða starfsmenn til lærdóms. Við lítum á það sem sóun ef tölvupóstar, ræður, greinar eða skýrslur eru ekki það skýrt orðaðar að viðtakandi átti sig strax á meginatriðum,“ segir Jón Þorvaldsson, framkvæmdastjóri Eflis, en fyrirtækið sérhæfir sig í að breyta flóknum upplýsingum í hnitmiðuð skilaboð og fagmáli í mannamál. Hefur það að undanförnu boðið upp á námskeið fyrir starfsmenn fyrirtækja í þessum tilgangi.

Meginmarkmið með námskeiðunum er að þátttakendur öðlist nýja sýn á framsetningu upplýsinga og átti sig á nýjum leiðum til að auka færni sína á því sviði, m.a. með því að skera fitu af texta, líta eigin texta gestsaugum og beita skapandi hugsun.

„Það er enginn vandi að kaffæra góðan texta með óþörfum orðum. Of mörg orð gera textann ekki bara leiðinlegri áheyrnar og aflestrar. Þau draga líka úr honum safann og grafa undan sterku orðunum sem segja það sem segja þarf. Innleiðingu straumlínustjórnunar er stundum líkt við að vatnsyfirborð sé lækkað þannig að steinar, sem áður voru í kafi, komi í ljós. Hið sama gildir um skarpa miðlun upplýsinga. Þegar aukaorð eru skorin burt, standa þau mikilvægu eftir og fá að njóta sín,“ segir Jón.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .