Lífeyrissjóði verzlunarmanna (LV) þykir miður þau sjónarmið sem komið hafa fram í fjölmiðlum um að sjóðurinn hafi ekki sinnt eðlilegri hagsmunagæslu fyrir sjóðfélaga þegar ákveðnar voru kaupaukagreiðslur til stjórnenda og stjórnar Klakka að því er fram kemur í fréttatilkynningu frá sjóðnum.

Eins og fjallað hefur verið um hafði hluthafafundur samþykkt kaupaukagreiðslur til lykilstjórnenda og stjórnarmanna vegna sölu á Lykli fjármögnun. Gætu þær orðið hæstar um 60 milljónir króna fyrir stjórnendur félagsins ef ítrustu verðhugmyndir nást, en í heildina gætu þær numið 550 milljónum.

Viðskiptablaðið hefur greint frá því að Klakki hefur verið skilgreint sem blandað eignarhaldsfélag í fjármálastarfsemi af Fjármálaeftirlitinu og því ekki háð lögum sem takmarka kaupaukagreiðslur, líkt og Lykill sjálft, en það félag er í 100% eigu Klakks.

Í fréttatilkynningu lífeyrissjóðsins segir að hann hafði ekkert afl til að breyta þeirri ákvörðun sem tekin var af hálfu mikils meirihluta hluthafa Klakka.

„Lífeyrissjóður verzlunarmanna telur kaupauka sem þennan umfram eðlileg viðmið og ekki í samræmi við þau sjónarmið sem starfskjarastefna sjóðsins byggir á,“ segir í tilkynningunni. „Lífeyrissjóðurinn var hins vegar ekki í neinni stöðu til að hindra samþykkt starfskjarastefnunnar þar sem hann á einungis óverulegan hlut í Klakka.

Eignahlutur LV í Klakka nemur um 1,5% af hlutafé félagsins og er bókfærður á um 47 milljónir króna hjá lífeyrissjóðnum. Hér er því um að ræða hlut sem nemur einungis um 0,007% af um 650 milljarða eignasafni LV. Til viðbótar eiga nokkrir aðrir lífeyrissjóðir um 4 til 5% eignahlut eins og fram hefur komið í fréttum.

Eignahlutur LV er til kominn vegna úrvinnslu á búi Exista hf. sem lauk með umfangsmiklum nauðasamningum og því er ekki um hefðbundna fjárfestingareign að ræða. Eins og fram hefur komið í tilkynningu frá Klakka eru ríflega 80% hlutafjár Klakka beint eða óbeint í eigu erlendra aðila.

Þeir hafi alfarið átt frumkvæðið að hinu umdeilda kaupaukakerfi. Þá er vert að nefna að kaupaukakerfið naut ekki stuðnings þess fulltrúa í stjórn Klakka sem LV og fleiri lífeyrissjóðir tilnefndu til stjórnarsetu.“

Eins og Viðskiptablaðið hefur fjallað um hefur formaður VR, sem áður stóð fyrir Verslunarmannafélag Reykjavíkur, Ragnar Þór Ingólfsson talað gegn bónusgreiðslunum og nú hefur hann ásamt Vilhjálmi Birgissyni formanni Verkalýðsfélags Akraness og Viðari Þorsteinssyni ritara Sósíalistaflokks Íslands boðað til mótmæla fyrir utan höfuðstöðvar Lykils.