Mannvit er með stærri fyrirtækjum á landinu sem starfa á sviðum verkfræðilegrar ráðgjafar og nýsköpunar. Helst starfar fyrirtækið við verkefni í orku, iðnaði og mannvirkjum. Fyrirtækið er að fullu í eigu starfsmanna þess, en það rekur átján skrifstofur í sjö mismunandi löndum.

Tryggvi Jónsson er framkvæmdastjóri mannvirkja hjá Mannviti. Að mati Tryggva hefur íbúðabyggingargeirinn að einhverju leyti tekið við sér eftir fjármálahrunið, en þó séu enn göt sem eftir á að stoppa upp í. Hann segir litla hreyfingu vera í opinberri fjárfestingu, hvort sem er í húsnæði eða innviðum. Hótelgeirinn er þó á talsverðu skriði, en Tryggvi telur hann hreyfast í takt við eftirspurn og túristafjölda og sé því ekki bóla.

Íbúðabyggingar komnar á skrið aftur

Að mati Tryggva hafa íbúðabyggingar verið að komast á aukið skrið eftir að hafa verið mjög hægfara á árunum eftir fjármálahrunið 2008. Það sé stórt gat í framboði á íbúðum miðað við eftirspurn hópa á borð við ungt fólk, sem valdi því að íbúðaverð fer hækkandi með ári hverju.

„Það vantar mikið af íbúðum og það er einmitt þess vegna sem verð er að hækka. Hagstofan talaði um það fyrir skömmu að það þurfi að minnsta kosti 1.500 íbúðir fyrir ungt fólk á hverju ári hér á landi. Á árunum eftir hrun voru það bara í kringum 400-500 íbúðir sem var verið að byggja á ársgrundvelli, og nú er verið að reyna að fylla inn í það gat,“ segir Tryggvi. „Hvað varðar hina hliðina á þessu vantar auðvitað að auðvelda nýjum kaupendum að eignast íbúð. Skipulagsmálin eru svo að þvælast fyrir, svo það hefur ekki komist svo gott flug á þetta sem þyrfti.“

Skortir fjárfestingar í innviðum

Að mati Tryggva er lítið að gera á markaði með skrifstofuhúsnæði. Þá er uppbygging hins opinbera í minni kantinum, sérstaklega þegar tekið er tillit til þess hve mikillar fjárfestingar er þörf á í almennum innviðum, þar með talið innviðum samgöngukerfa.

„Það er mjög lítið byggt af skrifstofuhúsnæði. Ég held að einfaldlega sé ekki nóg eftirspurn fyrir því á markaðnum þessa dagana. Það vantar þó að ríkið fari að fjárfesta í innviðum. Þar er komið risastórt gat, rétt eins og í íbúðabyggingageiranum,“ segir Tryggvi. „Tölur frá Samtökum iðnaðarins benda til þess að í kringum 200-250 milljarða gap í fjárfestingu í innviðum sem hefur fallið til undanfarin ár vegna sparnaðar. Vegir og brýr, göng og allt mögulegt skortir viðhald.“

Nánar er fjallað um málið í Verk og vit, sérblaði sem fylgdi með Viðskiptablaðinu á fimmtudaginn. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Innskráning.