Birgðir af hvalkjöti í Japan hafa ekki verið minni í fimmtán ár en þær eru núna, en blaðið The Japan Times greindi frá því í gær að í lok maí sl. hefðu einungis verið til 1.157 tonn af hvalkjöti á lager í landinu og þyrfti að fara aftur til ársins 2000 til að finna minni birgðir. Þetta kemur fram í Morgunblaðinu .

Þar segir að einnig sé greint frá því að von sé á 1.800 tonnum af hvalkjöti frá Íslandi eftir Norðausturleiðinni til að bæta birgðastöðuna. Innflutningurinn sé hins vegar háður óvissu þar sem andstæðingar hvalveiða reyni að stoppa útflutninginn auk þess sem reiknað er með að tollafgreiðsla taki nokkurn tíma.

Kristján Loftsson, forstjóri Hvals hf., segir í samtali við Morgunblaðið að tollafgreiðsla í Japan sé tímafrek. „Við værum ekkert að senda þetta út ef enginn vildi sjá þetta. Þú þarft alltaf að hafa lager því verslun með tómar hillur hefur ekki mikinn bísniss,“ segir hann.