Mér hefur aðeins þótt skorta skilning á peningahagfræði í litlum opnum kerfum," sagði Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri á fundi Seðlabankans í morgun, þar sem farið var yfir stýrivaxtalækkun Seðlabankans niður í 0,75%. Kallað hefur verið eftir því að Seðlabankinn stígi fastar inn með kaupum á ríkisskuldabréfum eins og bankinn boðaði í vor og veiti nánari leiðsögn um aðgerðir sínar.

Heilt yfir hafa aðgerðir Seðlabankans með lækkun stýrivaxta virkað betur en Ásgeir átti von á til að örva hagkerfið.

„Í fyrsta lagi er Ísland er í annarri stöðu en mörg önnur lönd,“ segir Ásgeir. Hann bendir á að í flestum löndum í kringum okkur væru stýrivextir í 0% eða jafnvel orðið neikvæðir. Þá væru nær engin verðbólga í ríkjunum sem væru að reyna að búa til verðbólgu. „Það veldur því að Seðlabanki Íslands hefur aðra möguleika til þess að bregðast við efnahagssamdrætti," segir Ásgeir.

„Magnbundin íhlutun og framsýn leiðsögn er eitthvað sem er þróað eftir að stýrivextir eru komnir niður í núll.“  Mikilvægt sé að hafa það í huga þegar Seðlabanki Íslands sé borinn saman við aðra seðlabanka.

Ekki hægt að prenta peninga þegar þrýst er á krónuna

Þá segir Ásgeir að hafa þurfti í huga samhengi á milli aðgerða bankans á skuldabréfamarkaði við gengi krónunnar. „Í litlu opnu kerfi er ekki hægt að prenta peninga á gjaldeyrismarkaði sem er undir þrýstingi."

Með gjaldeyrisinngripum væri jafnframt verið að draga úr peningamagni í umferð. Magnbundin íhlutun með kaupum á ríkisskuldabréfum yki hins vegar peningamagn í umferð. „Að láta sér detta í hug að við förum að láta út krónur með annarri hendi til þess að taka á mót þeim með hinni á gjaldeyrismarkaði, það gengur ekki upp,“ segir Ásgeir.

Sjá einnig: Hvenær kveikir Seðlabankinn á prentvélunum?

Ásgeir bendir á að Seðlabankinn hafi keypt gjaldeyri fyrir 100 milljarða króna frá því að kórónuveirufaraldurinn hófst. Þar af 70-80 milljarða króna á tveimur mánuðum. „Það væru vonlausar aðgerðir af setja ætti krónur jafnharðan í umferð og þær væru teknar úr umferð," segir Ásgeir.

Því þyrfti að byrja á að ná stöðugleika á gengi krónunnar áður en farið væri í annars konar aðgerðir. Gjaldeyriskaup Seðlabankans hefðu meðal annars verið til að bregðast við sölu erlendra aðila úr landi. Fjallað hefur verið um að sjóðsstýringafyrirtækið BlueBay hafi selt öll ríkisskuldabréf sín hér á landi að undanförnu, fyrir tugi milljarða króna.

Nú væri þessi aðili farinn úr landi og jákvæðar fréttir hafa borist af bóluefni við kórónuveirunni. Það ætti að styðja við gengi krónunnar.

Ekki með móðursjúkan skuldabréfamarkað í daggæslu

Ekki væri sérstakt áhyggjuefni þó langtímaávöxtunarkrafa ríkisskuldabréfa hefði hækkað . Það hafi þurft til að ná stöðugleika á gengi krónunnar.

Þó að Seðlabankinn hafi boðað magnbundna íhlutunum varðandi kaup á ríkisskuldabréfum hafi bankinn ekki tekið skuldabréfamarkaðinn „í daggæslu á einhverjum róluvelli," segir Ásgeir.

Markmið inngripa Seðlabankans væri að koma í veg fyrir að aukin útgáfa af ríkisskuldabréfum hindraði miðlun peningastefnunnar.  Ef einhver aðili væri að selja bréf og losa stöður sínar, líkt og raunin hefur verið í tilfelli BlueBay þyrftu aðrir að taka við þeim bréfum. Markaðurinn þyrfti að sjá um það sjálfur. Það væri ekki Seðlabankans að bregðast við því.

„Miðað við hvað þessir markaðir eru litlir og oft móðursjúkir þá verður Seðlabankinn að hafa sveigjanleika til þess að geta brugðist við aðstæðum á markaði eins og við höfum gert,"  segir Ásgeir.

Vaxtahækkun bankanna ekki áhyggjuefni

Þá vísaði Ásgeir til umræðum um að Landsbankinn og Íslandsbanki hafi nýlega hækkað vexti á lánum með föstum vöxtum. Ásgeir segir ástæðuna vera að bönkunum hefði ekki gengið nægjanlega vel að selja sértryggð skuldabréf. Ekki væri ástæða fyrir Seðlabankann að bregðast sérstaklega við því.

„Síðast þegar ég kíkti á fasteignamarkaðinn var hann í blússandi gangi. Það eru engin vandræði að koma peningastefnunni áfram inn á fasteignamarkaðinn — engin," segir seðlabankastjóri.

Seðlabankinn hefði meiri áhyggjur af því að bankarnir væru ekki að lána út til fyrirtækja en slík lán væru alla jafna á fljótandi vöxtum.