Lýsi hf. hefur undanfarin ár unnið mikið og öflugt sölu- og markaðsstarf víðs vegar um heiminn og er í dag eitt af öflugustu útflutningsfyrirtækjum landsins. Árin 2005 og 2012 voru nýjar verksmiðjur teknar í notkun og í dager svo komið að 95% af allri framleiðslu Lýsis eru nýtt í útflutning. Katrín Pétursdóttir, forstjóri Lýsis, segir þenslu og mikla styrkingu krónunnar hins vegar koma illa við fyrirtækið sem önnur útflutningsfyrirtæki.

Lýsi hefur ekki látið staðar numið í landvinningum sínum og vinnur nú að því að koma vörum sínum á markað í Kína. „Það er ekki hlaupið að því að komast inn á svo stóran og flókinn markað. Við erum ennþá í skráningarferli, ótrúlega þungu skráningarferli, en maður verður bara að læra það að góðir hlutir gerast hægt og reyna að vera þolinmóður. Þeir hafa sagt okkur að ferlið muni taka í kringum í tvö ár,“ segir Katrín.

Fín og skemmtileg veisla í gangi

Þenslan í íslensku þjóðfélagi um þessar mundir og mikil styrking krónunnar veldur Katrínu hins vegar áhyggjum. „Þetta kemur bara mjög illa við okkur. Það sem fer verst með okkur er skorturinn á stöðugleika. Við þurfum stöðugleika, en ekki umhverfi þar sem forsendur eru sífellt að breytast.“

Hún segir erfitt að bregðast við svo síbreytilegu umhverfi og aðgerðir skili oft litlu. „Um leið og upp er staðið hefur gengið styrkst enn frekar og þær aðgerðir sem þú ert búin að fara í tilgangslausar. Mér er í raun hulið hvað menn eru að hugsa hvað útflutningsvegina varðar. Jú, það er augljóslega ofsalega skemmtilegt og fín veisla í gangi um þessar mundir og verðhjöðnun á kostnað útflutningsvara sem stafar af gríðarlega innflæði af gjaldeyri sem kemur með auknum fjölda ferðamanna.“

Nánar er fjalla um málið í aukablaðinu Orka og Iðnaður sem fylgir Viðskiptablaðinu þessa vikuna. Áskrifendur geta nálgast eintak á pdf-formi undir hlekknum Tölublöð.