„Við munum einblína á framtíðina og hvaða tækifæri eru til staðar í sjávarútvegi og fiskeldi til þess að atvinnugreinarnar geti lagt sitt af mörkum til áframhaldandi góðra lífskjara og hagvaxtar fyrir komandi kynslóðir,“ segir Heiðrún Lind Marteinsdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi (SFS) spurð um áhersluatriði aðalfundar samtakanna sem fram fer á morgun, föstudag. „Margir telja kannski að við höfum ekki mikið meira að sækja úr sjávarútvegi því atvinnugreinin er þeim takmörkunum bundin að það þarf að haga veiðum eftir viðurkenndum vísindum og magnið sé þar með ólíklegt til að aukast. Það er samt margt vanmetið í því hvar við getum gert betur í aukinni verðmætasköpun í virðiskeðjunni. Ég tel til að mynda að það sé alls ekki gefið að við getum ekki sótt meira magn af afla úr sjó,“ bætir hún við.

Niðurskurður mörg ár aftur í tímann á fjárframlagi til hafrannsókna sé þó eitt af því sem standi íslenskum sjávarútvegi fyrir þrifum. „Breyttar aðstæður í hafi, vegna meðal annars loftslagsbreytinga, hlýnunar og súrnun sjávar, og auknar kröfur á mörkuðum um staðfestingu á sjálfbærni veiða, hafa kallað á aukinn metnað og fjármagn í hafrannsóknir. Því miður hafa stjórnvöld sofið á verðinum. Sökum þess nægilegt fjármagn er ekki sett í hafrannsóknir, þá er verður óvissan um ástand nytjastofna og aðrar aðstæður í hafi meiri. Niðurskurður til vöktunar nytjastofna þýðir meiri óvissu – og meiri óvissa leiðir til varfærnari ráðgjafar um hvað sé ráðlagt að veiða mikið. Ef við myndum bæta í hafrannsóknir – það sem mætti kalla óverulegum fjárhæðum í stóra samhenginu miðað við verðmætin sem geta skilað sér á móti – þá eigum við að geta minnkað óvissuna og um leið bætt ráðgjöfina. Hinn þjóðhagslegi ábati er óumdeilanlegur“ segir Heiðrún.

Hún segir eina helstu áskorun fyrirtækja í sjávarútvegi að nýta enn betur fiskinn sem þau draga upp úr sjónum. „Það hefur vel tekist til í að nýta svo til allan þorskinn til verðmætasköpunar og vonandi tekst að fara sömu leið með fleiri tegundir.“ Bæði fyrirtæki og stjórnvöld geti gert enn betur í að markaðssetja íslenskar sjávarafurðir á alþjóðavísu. „Íslenskur fiskur eru þekktur fyrir mikil gæði og tekist hefur vel til við skipulag veiða og vinnslu þannig að afhendingaröryggi er gott. Það hefur skilað sér í mikilli eftirspurn eftir íslenskum fiski á hátt borgandi mörkuðum. Þarna hafa fyrirtækin unnið þrekvirki og enn er keppst við að gera betur í dag en í gær. Stjórnvöld mættu gjarnan huga betur að sínum þætti í markaðssetningunni, með því að tryggja gott og samkeppnishæft aðgengi að mörkuðum í formi fríverslunar- og tollasamninga við önnur ríki.“

Heiðrún segir íslenskar sjávarafurðir almennt njóta góðs aðgengis að erlendum mörkuðum, en það sé orðið aðkallandi að huga betur að breyttri og aukinni vinnslu afurða hér á landi. „Við erum með góð tollakjör inn á flesta af okkar mikilvægustu mörkuðum en þau kjör eiga oft aðeins við um óunnar sjávarafurðir. Hér áður fyrr einblíndi sjávarútvegurinn á útflutning á óunnum sjávarafurðum, en núna þegar við erum farin að vinna afurðirnar frekar þá eru þær afurðir í sumum tilfellum farnar að bera hærri tolla. Áhersla stjórnvalda þarf að vera á að ná fram betri tollakjörum á unnum afurðum, til þess einmitt að búa til hvata fyrir áframhaldandi verðmætasköpun í fiskvinnslu hér á landi. Það er ekki sanngjarnt að gjaldið fyrir að skapa atvinnu á Íslandi og auka verðmæti sé jafnvel hærri tollar.“

Bestu ár í sögunni

Heiðrún segir stöðu íslensks sjávarútvegs að flestu leyti mjög góða. „Síðustu ár hafa verið bestu ár í sögu íslensks sjávarútvegs. Það má í raun segja að allt frá hruni hafi sjávarútvegurinn notið sígandi lukku. Mér sýnist 2022 jafnvel hafa toppað fyrri ár og heilt yfir er því yfir litlu að kvarta.“ Íslenskur sjávarútvegi standi þó frammi fyrir ýmsum áskorunum. Glíman við mikinn samdrátt í þorskstofninum sé dæmi um það. „Það hefur haft sín áhrif upp á það að gera að halda uppi veiðum allan ársins hring og um leið fólki í heilsársstörfum. Á móti hefur það hjálpað til að verð á afurðunum hefur verið hátt og það mildað höggið því þorskmagnið er sannarlega ekki á þeim slóðum sem við viljum sjá til lengri tíma.“

Hvað uppsjávarafurðir varði spili ástandið í Austur-Evrópu, og þá sérstaklega Úkraínu, sinn þátt. „Það ríkir enn nokkur óvissa um hvernig ástand á þessum mörkuðum mun þróast. Viðskiptin hafa haldist í gegnum stríðið að mestu leyti, en auðvitað hvergi nærri með sama hætti og var. Hvað verður þegar fram líða stundir er ómögulegt að segja til um. Í svona aðstæðum má sjá hversu mikils virði það er fyrir íslenskan sjávarútveg að vera með sveigjanleika í kerfinu og hafa á að skipa fjárhagslega sterkum fyrirtækjum, sem eru vel í stakk búin til að takast á við áskoranir sem upp koma í umhverfinu.“

Vanþekking á hvernig verðmætin verða til

Fá umræðuefni eru algengari í sölum Alþingis og á kaffistofum landsins heldur en íslenskur sjávarútvegur og sitt sýnist hverjum um ágæti þess kerfis sem nú er við lýði. Heiðrún kveðst kjósa að líta svo á að glasið sé hálf fullt frekar en hálf tómt. „Að sjálfsögðu kemur alltaf fram einhver gagnrýni á sjávarútveginn enda nýtir hann sameiginlega auðlind þjóðarinnar og það verður alltaf hápólitískt mál. Sjávarútvegur getur því ekki kveinkað sér yfir því að kastljósið sé á atvinnugreininni og að gerð sé krafa um að hann sýni ábyrgð.“ Hins vegar hefur hún áhyggjur af því að í mörgum tilfellum þekki fólk ekki nægilega vel hvernig verðmætin verða til. „Marga hættir til að halda að veiddur fiskur sé verðmæt vara og framhaldið – hvernig hún er unnin, á hvaða markaði hún er seld o.s.frv. – skipti ekki miklu máli. Það er mikill misskilningur. Hvergi í heiminum hefur tekist jafn vel til og hér að tryggja verðmætasköpun í allri virðiskeðjunni. Á þeirri vegferð þarf traust og gagsætt kerfi, hagkvæman rekstur, mikla fjárfestingu og enn meiri þrautseigju. Það er þetta sem gleymist oft, því miður.“

Íslenskur sjávarútvegur komi til að mynda mjög vel út úr samanburði við norskan sjávarútveg. „Við förum allt aðrar leiðir en Norðmenn sem flytja í raun óunna afurð, a.m.k. hvað þorskinn varðar, úr landi. Þar með verða hin þjóðhagslegu verðmæti minni heldur en við þá áherslu sem hefur verið stuðst við í íslenskum sjávarútvegi um að tryggja að verðmætasköpunin fari fram hér á landi með vinnslu á Íslandi. Mér finnst þekkingin á þessari verðmætu en viðkvæmu virðiskeðju mjög takmörkuð. Þar getur atvinnugreinin litið í eigin barm, sem og við hjá SFS, því við þurfum að gera betur í að upplýsa og fræða fólk um það hvernig verðmætin verða til innan íslensks sjávarútvegs og hvernig þessum verðmætum er síðan skipt.“

Hún segir umræðu um kvótakerfið, veiðigjöld og annað sem tengist sjávarútvegi alltaf verða til staðar. „Það er vinsælt að tala um að það þurfi aukna sátt um sjávarútveginn. Ég ætla ekki að mótmæla því, en minni um leið á að það hefur verið ráðist í margar breytingar á kerfinu með það fyrir augum að ná sátt um kerfið. Þingið hefur t.d. sett á fót minna kerfi, svokallað krókaaflamarkskerfi, svo minni aðilar eigi auðveldara með að komast inn í sjávarútveg. Þá var komið á hámarkshlutdeild þar sem Alþingi setti skorður við hversu stór sjávarútvegsfyrirtæki geta orðið. Það er gert þó að við séum á alþjóðamarkaði að keppa við risastór fyrirtæki. Allur íslenskur sjávarútvegur samanlagður væri bara brot af þeim fyrirtækjum sem við þurfum að keppa við. Árið 2004 var svo lagt á veiðigjald. Með lögum árið 2011 samþykkti Alþingi síðan að taka 5,3% aflaheimilda til aðgerða eins og strandveiða, byggðakvóta og línuívilnunar. Allar þessar breytingar og fleiri hafa verið gerðar undir þeim formerkjum að ná aukinni sátt um sjávarútveg. Það er kannski umhugsunarefni að allar þessar breytingar vinna gegn efnahagslegri skilvirkni og draga þannig úr því endurgjaldi sem þjóðin fær af sjávarauðlindinni. Vonandi má draga einhvern lærdóm af því og leita þá fanga annars staðar til að ná margumtalaðri sátt. “

Þrátt fyrir þessar breytingar sé sjávarútvegurinn alveg jafn mikið á milli tannanna á fólki og áður. „Ég hef mestar áhyggjur af því að öll áherslan beinist að þáttum sem draga úr skilvirkni og verðmætasköpun atvinnugreinarinnar. Það er lítið einblínt á hvernig við getum búið til aukin verðmæti í sjávarútvegi og hvert framlag hans geti orðið til hagvaxtar og góðra lífskjara til framtíðar. Hvernig ætlum við að bæta vísindin og þannig tryggja að við séum að hámarka nýtingu sjávarauðlindarinnar? Hvernig getum við fest í sessi öfluga vinnslu sjávarafurða hér á landi? Hvernig má bæta aðgang að mörkuðum? Það þarf með öðrum orðum að stilla fókusinn. Við þurfum að vera sammála um hvert skuli stefna og hvernig beri að varða leiðina að markmiðinu. Það er því miður lítið verið að huga að þessum þáttum. Þess í stað er orkunni beint að því sem dregur úr skilvirkni og verðmætasköpun. Með þessum hugsunarhætti til lengri tíma verða einfaldlega minni verðmæti til skiptanna. Það yrði dapurlegur heimanmundur fyrir komandi kynslóðir.“

Umfjöllunin birtist í sérblaðinu SFS: Auður hafsins - lífskjör framtíðar, sem kom út fimmtudaginn 23. mars 2023. Áskrifendur geta lesið hana í heild hér.