Breska fjármálaeftirlitið gengur nú hart gegn skortsölu en talið er að skortsala sé ein aðalástæða  gríðarlegs falls á hlutabréfaverði HBOS undanfarna daga.

Breska ríkisútvarpið, BBC, segir frá því að margir greinendur telji skortsölu hafa verið aðal ástæðu þess að Lloyds bankinn hyggist nú yfirtaka yfir HBOS, en yfirtökuverð er 12,2 milljarðar sterlingspunda.

BBC hefur eftir Hector Sants, forstjóra breska fjármálaeftirlitsins, að þó skortsala teljist lögmæt fjárfestingaleið við venjulegar kringumstæður, þá geti hún vart talist réttmæt við hvílíkar öfgaaðstæður sem nú ríkja á mörkuðum.

Alistair Darling, fjármála- og bankamálaráðherra Bretlands, hefur tekið aðgerðum fjármálaeftirlitsins vel og segist hann sömu skoðunar og Sants, nauðsynlegt sé að vinna gegn skortsölu við núverandi markaðsaðstæður.

Stjórnvöld í Bretlandi vinna nú hörðum höndum að því að sporna gegn frekari kreppu á mörkuðum m.a. með því að tryggja stöðu sparifjáreigenda.