Breska fjármálaeftirlitið hefur beint sjónum sínum að skortsölum, en slíkum viðskiptum er nú kennt um nýlegt fall á gengi hlutabréfa breska bankans HBOS. Frá og með næstu viku munu fjárfestar með skortstöðu í skráðum félögum þurfa að lýsa yfir hvaða hagsmunir standi þar að baki. BBC segir frá þessu.

Á tímabilinu 6. júní til 12. júni lækkuðu bréf HBOS um 14%, og á miðvikudag nam fallið heilum 12%. Skortstöðu vogunarsjóða var kennt um fallið, en HBOS hafði fyrirætlanir uppi um hlutafjárútboð upp á 4 milljarða punda á genginu 275 pens á hlut. Á miðvikudag var dagslokagildi bréfanna síðan 258 pens á hlut. Í kjölfar tilkynningar fjármálaeftirlitsins hækkuðu bréfin hins vegar aftur upp í 321,75 pens.

Framvegis munu stórar skortstöður þurfa á tilkynnast til fjármálaeftirlitsins, séu stöðurnar í fyrirtækjum þar sem hlutafjárútboð er á döfinni.Samkvæmt skilgreiningu fjármálaeftirlitsins telst skortstaða stór ef fjöldi skortseldra hluta nemur 0,25% eða meira af heildarhlutafé viðkomandi félags.

Þrátt fyrir að kalla eftir aukinni upplýsingagjöf um skortsölur segir fjármálaeftirlitiðjafnframt að skortsölur séu nauðsynlegt tæki og auki skilvirkni og styrki verðmyndun á markaði.