"Pólsk hjúkrunarkona býður sig fram til alþingiskosninga á Íslandi, breska verkamannasambandið hefur stofnað sérstaka deild fyrir pólska innflytjendur, kaþólska kirkjan á Írlandi er að ganga í gegnum miklar breytingar vegna þess mikla fjölda Pólverja sem mæta í sunnudagsmessurnar, dagblöð á pólsku spretta nú upp eins og gorkúlur víða um Evrópu og hjálpa þeim sem eru nýfluttir að finna vinnu, íbúð og sækja um kennitölur og annað."

Þetta skrifar blaðamaður Herald Tribune, Judy Dempsay, í sérstakri úttekt um mikla flutninga Pólverja til Vestur-Evrópu. Dempsay gengur meira að segja svo langt að kalla fyrirbærið aðra bylgju pólskra þjóðflutninga en eftir seinni heimstyrjöld voru Pólverjar flóttamenn víða um Evrópu og settust að í Vestur-Evrópu og víðar í stórum stíl. Sagan endurtekur sig nú, reyndar af allt öðrum ástæðum, sem betur fer, en síðan Pólland gekk í Evrópusambandið árið 1994 og varð hluti af innri markaði Evrópu hafa hvorki meira né minna en 800 þúsund Pólverjar flust til Vestur-Evrópu.

Í grein Herald Tribune kemur fram að þessir miklu þjóðflutningar Pólverja hafa gert það að verkum að mikill skortur á vinnuafli í Póllandi hamlar nú uppbyggingu og þróun landsins. Ástandið er svo slæmt að hætta verður við að byggja vegi og bæta vatnskerfi í Varsjá, höfuðborg Póllands, en Evrópusambandið hafði ætlað að borga fyrir þessar framkvæmdir. Það verður hinsvegar ekki hægt að framkvæma þetta vegna skorts á vinnuafli og því fara peningarnir eitthvert annað.

"Peningar eru ekki lengur vandamál þar sem Evrópusambandið hefur mikinn áhuga á að bæta innra skipulagskerfið hér í Póllandi, vandamálið er hinsvegar að enginn fæst til að vinna verkið. Milljónir evra sem eru eyrnamerktar vegaframkvæmdum í Póllandi streyma til landsins í byrjun næsta árs, en við höfum ekki hugmynd um hvernig við ráðum við framkvæmdina án þess að hafa nægilegan mannskap," segir Bartlomiej Sosna, byggingasérfræðingur hjá ráðgjafafyrirtækinu PMR í Kraká. "Við höfum ekki nægilega margar hendur til að byggja vegina og ef við nýtum ekki fjárframlagið frá Evrópusambandinu innan ákveðinna tímamarka þurfum við að skila því aftur til Brussel," segir hann. "Þetta mun hafa í för með sér að nútímavæðing og þróun Póllands mun sitja á hakanum og það mun til lengri tíma hafa neikvæð áhrif á hagvöxt og fjárfestingar í Póllandi," segir Sosna,


Ennþá á skrá í Póllandi

Tölfræðin í Póllandi gefur hinsvegar upp aðra mynd, að sögn Marcin Kulinics, sérfræðings hjá vinnumálaráðuneyti Póllands. "Á sama tíma og við glímum við þennan skort á vinnuafli voru á síðasta ári 100 þúsund pólskir iðnaðarmenn á atvinnuleysibótum," segir Marcin. Hann útskýrir að pólskir iðnaðarmenn hverfi til starfa í útlöndum þar sem þeim eru borguð mun hærri laun en gengur og gerist í Póllandi. Hinsvegar freistast þeir til að þiggja atvinnuleysisbætur heiman frá meðan þeir vinna í útlöndum til þess að þeir missi ekki réttindi sín innan kerfisins og fái ennþá aðgang að pólska heilbrigðiskerfinu og öðrum bótum.

Forseti Póllands, Lwch Kaczynski, hefur gagnrýnt burtflutta Pólverja fyrir að misnota kerfið og hefur notað tækifærið þegar hann er í opinberum heimsóknum í öðrum Evrópuríkjum til að hvetja þá til að hætta að þiggja bætur frá pólska ríkinu.

En brottflutningur iðnaðarmanna er ekki eina vandamálið sem Pólland stendur frammi fyrir. Auk þess er einfaldlega skortur á fólki með menntun í iðngreinum. Krystyna Iglicka, sem er félagsfræðingur hjá stofnun alþjóðlegra samskipta í Varsjá, segir að menntunarkerfi Póllands hafi verið þannig uppbyggt að ekki nærri því nógu margir hafi hlotið iðnaðarmenntun á tíunda áratug síðustu aldar. "Þetta gerir það að verkum að of margir menntuðu sig í markaðsfræði og þjónustugreinum en okkur vantar iðnaðarmenn," segir Krystyna.

Til þess að takast á við þetta vandamál hafa stjórnvöld í Póllandi byrjað í stórauknum mæli að gefa út atvinnuleyri til innflytjenda frá Úkraínu og Hvíta-Rússlandi og hvatt þá til að koma til Póllands að vinna þar sem launin eru tvöfalt og jafnvelt þrefalt hærri en heima fyrir. En líkt og Pólverjarnir sjálfir hafa nágrannar þeirra í austri lítinn áhuga á að koma til Póllands að vinna þar sem skattar eru háir og launin lág samanborið við það sem þekkist annars staðar. Af þeim 10 þúsund atvinnuleyfum sem pólsk stjórnvöld gáfu út hafa eingöngu þrjú þúsund verið notuð. Úkraínubúarnir, Rúmenarnir og Hvit-Rússarnir leita nefnilega, líkt og frændur þeirra í Póllandi, vestur á leið og ráða sig frekar í vinnu í Portúgal, á Spáni og víðar í vestur Evrópu þar sem launin eru mun hærri.