*

föstudagur, 28. janúar 2022
Erlent 16. nóvember 2021 13:41

Skortur á einkaflugvélum

Gífurleg eftirspurn er eftir einkaflugvélum þessa dagana sem hefur leitt til allt að tveggja ára biðtíma eftir nýjum vélum.

Ritstjórn
epa

Mikil auðsöfnun við hækkandi eignaverð og hið erfitt ástand í fluggeiranum frá því kórónuveirufaraldurinn hófst hefur leitt til þess að metfjöldi auðugra ferðamanna sækist nú eftir að eignast eigin flugvélar. Markaðsaðilar muna ekki eftir álíka ástandi en allt að tveggja ára biðtími er eftir nýjum vélum. Financial Times greinir frá.

Flogið hefur verið 4,2 milljónir ferða með einkaflugvélum í ár, samkvæmt gagnaveitunni WingX, en met var slegið í hverjum af síðustu sex mánuðum. Flogið var 54% fleiri ferðum í fyrstu vikunni í nóvember samanborið við sömu viku á síðasta ári og 16% meira en á sama tíma árið 2019.

Forstjóri Flexjet, sem heldur utan um sameiginlegt eignarhald einstaklinga eða flugrekstraraðila á einstaka flugvélum (e. fractional ownership) hefur eytt síðustu mánuðum nær alfarið í að versla nýjar þotur. Vegna mikillar eftirspurnar hefur fyrirtækið lokað tímabundið á nýja viðskiptavini fyrir ákveðna þjónustu. Sama er uppi á teningnum hjá NetJets, sem hefur greint frá mestu eftirspurn eftir flugi í 60 ára sögu fyrirtækisins og er nú að fjárfesta um 2,5 milljörðum dala í 100 nýjum flugvélum.

Fjöldi notaðra flugþota sem voru í sölu í október voru 861 talsins, um helmingi færri en á sama tíma árið 2019.

„Í fyrsta skipt í mjög langan tíma erum við að sjá taugastrekkta kaupendur. Fólk er að borga yfir ásett verð og það er einfaldlega skortur sem hefur aldrei sést áður,“ er haft eftir greinanda hjá mba Aviation.

Þá segir annar viðmælandi FT að það sé jafnvel sterk eftirspurn eftir eldri vélum sem eru dýrari í rekstri og krefjast meira viðhalds. Hann sagði jafnframt að biðlistar eftir flestum nýjum flugvélum nálgast nú tvö ár.

Framkvæmdastjóri hjá Super Legacy, sem gerir upp notaðar flugþotur, segir að ekki sé nægilegt framboð af íhlutum til að anna eftirspurn.

Stikkorð: Einkaflugvél