Aukin notkun handsápu og spritts í kjölfar útbreiðslu Covid-veirunnar hefur leitt til skorts á plastpumpum. Ýmis fyrirtæki eru nú farin að huga að endurhönnun á pakkningum sínum og hvetja viðskiptavini til að endurnýta pumpurnar.

Vegna hinnar miklu eftirspurnar eftir hreinlætisvörum hafa sápufyrirtæki stóraukið framleiðslu sína og fyrirtæki úr öðrum geirum, líkt og áfengis- og ilmvatnsframleiðendur, hafa einnig komið inn á markaðinn. Sala á handspritti hefur fimmfaldast á fyrri helming ársins, samkvæmt gagnaveitunni Nielsen. Það hefur þó verið erfiðara að mæta aukinni eftirspurn eftir handpumpum, að hluta til vegna flókinnar framleiðslu.

„Það eru miklu meiri inngangshindranir í framleiðslu á pumpum heldur en handspritti,“ hefur WSJ eftir Frederick Dutrenit, yfirmanni framleiðslu heilbrigðisdeildar Reckitt Benckiser Group sem hefur átt í erfiðleikum að finna pumpur fyrir Dettol handsprittið sitt. „Þú þarft meiri búnað fyrir hana heldur en einungis blöndunartank.“

Stjórnendur slíkra fyrirtækja segja að verð pumpa, flestar framleiddar í Kína, hafa skotist upp. Þeir segja að afgreiðslutími, sem venjulega sé í kringum fimm vikur, teygi sig núna inn á næsta ár.

Dutenit segir að Reckitt, sem selur einnig úðabrúsa, eigi einnig í svipuðum vandræðum að útvega sér úðagikkjum (e. spray triggers) og að vandinn eigi við um allan bransann. Gojo Industries, sem framleiðir Purell vörurnar, er byrjað að selja kippur af spritti og sótthreinsarefnum með einungis tveimur gikkjum ætluðum til endurnotkunar.