„Það er óvenjumikið spurt um naggrísinn nú í haust, hann er langvinsælastur,“ segir Gerður Marísdóttir í Dýraríkinu um hvaða gæludýr sé vinsælast hjá þeim. Gerður segir naggrísi millibil kanínu og hamsturs. „Þeir lifa í 4-6 ár og eru óvenjuskemmtileg dýr og mjög miklir karakterar. Þeir skríkja ef þeir eru svangir og þekkja eiganda sinn.“

Gerður kann ekki skýringu á þessum vinsældum en segir að vegna þeirra sé skortur á naggrísum eins og er. „Við erum búin að setja allt á fullt hérna hjá okkur en meðgangan er samt 2 mánuðir og síðan þarf að bíða í 5 vikur áður en þeir eru seldir,“ segir Gerður og bætir við að vinsældir degu, eyðimerkurrottunnar frá Chile, séu líka að aukast.

„Degu er skyldari kanínum eða íkornum og er eina nagdýrið sem leggst á bakið og leyfir eigandanum að klóra sér á maganum. Eftir að fólk fór að kynnast þeim hefur eftirspurnin aukist,“ segir Gerður.