*

fimmtudagur, 15. apríl 2021
Innlent 21. júlí 2014 16:52

Skortur á nautakjöti hefur áhrif á SS pylsur

Sláturfélag Suðurlands hefur tekið að blanda dönsku nautakjöti í SS pylsurnar.

Ritstjórn
Aðsend mynd

Mikill skortur er á íslensku nautakjöti í dag og anna íslenskir bændur ekki þeirri miklu eftirspurn sem er eftir vörunni. Sláturfélag Suðurlands hefur brugðist við skortinum með því að blanda dönsku nautakjöti í SS pylsur. „Því miður, vegna núverandi skorts á íslensku nautakjöti þá neyddumst við til þess að nota örlítinn hluta af dönsku nautakjöti sem uppfyllir allar okkar gæðakröfur,“ segir Guðmundur Svavarsson, framleiðslustjóri SS á Hvolsvelli.   

„Það er þó bara hluti af nautakjötinu sem er danskt. Stærsti hluti af nautakjötinu er íslenskur,“ segir Guðmundur og bætir við að það hafi ekki verið auðvelt að byrja að nota erlent kjöt í vöruna. „Það var okkur ekki sérstaklega mikið gleðiefni en þetta er bara mjög tímabundið, rétt yfir háannatimann. Við byrjuðum á þessu seinni partinn í júní en munum taka þetta út seinna í sumar.“ 

Að öðru leyti segir Guðmundur að uppskriftinni að SS pylsum hafi ekki verið breytt. „Við förum ekki að breyta uppskrift af vöru eins og SS pylsum. Það er bara eins og að breyta uppskrift af Coke. Það væri algerlega fráleitt.“