Jim Whitehurst, forseti IBM, hefur varað við því að það skorturinn á tölvukubbum gæti varað í tvö ár til viðbótar. Ástandið hefur reynst bílaframleiðendum erfitt uppdráttar en margir þeirra hafa þurft að draga úr framleiðslu sinni eða jafnvel loka verksmiðjum tímabundið. Áætlað er að tap bílaiðnaðarins í ár vegna skortsins muni nema allt að 110 milljörðum dala.

Skorturinn jókst verulega þegar samsetningarverksmiðjur neyddust til að loka í byrjun heimsfaraldursins en aukin eftirspurn eftir raftækjum, líkt og tölvuleikjavélum og snjallsímum, undanfarið ár hefur leitt til enn meiri ásókn í örgjörvanna.

Whitehurst segir að talsverðan tíma taki fyrir framleiðendur örgjörva að bregðast við aukinni eftirspurn og því gæti IBM þurft að grípa til annarra úrræða til að bregðast við skortinum.

„Við þurfum að reyna að endurnota og lengja líftíma ákveðnaa tegunda tölvuvinnslutækni, ásamt því að fjárfesta meira í samsetningarverksmiðjum til þess að auka framleiðslugetuna,“ er haft eftir honum í frétt BBC.

IBM er leyfishafi tækni fyrir örgjörva sem stærstu örgjörvaframleiðendur heims, þar á meðal Intel, TSMC og Samsung, nota í framleiðslu sinni.

Joe Biden Bandaríkjaforseti telur að skorturinn sé langtímavandamál og fundaði nýverið með forstjórum stærstu fyrirtækja örjörvaiðnaðarins. Biden brýndi fyrir þeim að gera Bandaríkin að heimsleiðtoga í framleiðslu tölvukubba. Um 75% af framleiðslunni á heimsvísu á sér stað í Austur Asíu.