Farið er að bera á skorti á þurrmjólk handa ungbörnum á Vesturlöndum vegna þess að Kínverjar kaupa þurrmjólk utan Kína. Ástæðan er sú að þeir vantreysta innlendri framleiðslu. Hún er einnig mun ódýrari utan Kína.

The New York Times fjallar um málið í gær. Þar kemur fram að algengar vörur, sem ferðamenn frá Kína kaupa, séu silkislæður, handtöskur frá Louis Vuitton, svissnesk úr og síðan þurrmjólk.

Þurrmjólkurmálið þykir bera vott um hve víðtæk áhrif neyslumynstur þjóðar á stærð við Kína getur haft á nauðsynjavöru í heiminum.

Stórar keðjur eins og Boots og Sainsbury´s í Bretlandi hafa brugðist við og nú má einstaklingur bara kaupa tvær dósir af þurrmjólk. Í Hong Kong er nú aðeins leyfilegt að fara með tvær dósir úr landi, annars má sekta viðkomandi um 6500 dali eða dæma í tveggja ára fangelsi. Þessi hertu tollalög þykja minna meira á lög um eiturlyfjasmygl heldur en lög um ungbarnamjólkursmygl.

Ástæður þess að Kínverjar vantreysta innlendri framleiðslu á ungbarnamjólk má rekja til dauða 6 barna árið 2008. Þá var eiturefninu Melamine blandað saman við þurrmjólk. Yfir 300 þúsund börn veiktust að auki í kjölfarið.

Í könnun sem gerð var nýlega segjast 41% Kínverja vantreysta innlendri framleiðslu á matvöru, samanborið við 12% árið 2008.