Sérfræðingar á breskum fjármálamarkaði búast fastlega við því að skoski auðkýfingurinn Sir Tom Hunter, hugsanlega í samstarfi við Baug, hafi áhuga á að bæta Dobbies-garðvöruverslunarkeðjunni í eignasafn sitt.

Hópur fjárfesta, sem meðal annars inniheldur Baug, Hunter og Bank of Scotland, hefur gert formlegt kauptilboð bresku garðvöruverslunarkeðjuna Blooms of Bressingham að virði 30 milljónir punda, sem samsvarar tæpum fjórum milljörðum króna.

Getgátur í breskum fjölmiðlum benda til þess að líklegt sé að fjárfestahópurinn hafi einnig áhuga á að kaupa Dobbies og sameina Blooms-keðjunni og Wyevale Garden Centres. Fjárfestarnir keyptu Wyevale í fyrra fyrir 311 milljónir punda. Hunter hefur byggt upp 8,5% hlut í Dobbies.

Richard Ratner, sérfræðingur hjá breska verðbréfafyrirtækinu Seymour Pierce, telur að verðið muni skipta sköpum. "Spurningin er hversu mikið Hunter er tilbúinn til að borga. Dobbies er mjög vel rekið fyrirtæki. Að okkar mati er líklegt kaupverð 15 pund á hlut, en ekki er víst að Hunter sé tilbúinn að fara svo hátt," sagði Ratner.