Skosku viskísamtökin (Scotch Whisky Association) veita almennt jákvæða umsögn um áfengislagafrumvarp Vilhjálms Árnasonar og hvetja þingmenn til að veita því brautargengi.

„Við tökum áformum um að auka frelsi með verslun á áfengum drykkjum fagnandi," segir í umsögninni.

Verðmæti viskíútflutnings skota er að jafnvirði um 840 milljarða íslenskra króna á ári hverju, sem jafngildir tæplega helming af vergri landsframleiðslu Íslands sé miðað við árið 2013.

Vilja ekki „verslun í versluninni“

Samtökin gera þó ákveðinn fyrirvara við einstök atriði frumvarpsins. Til að mynda leggjast þau gegn því að framleiðendum sterkra áfengra drykkja, sem eru yfir 22% vínandamagn, sé mismunað gagnvart framleiðendum drykkja með minna áfengisinnihald.

„Engin ástæða er tiltekin fyrir því að sterkir drykkir eigi að hljóta aðra meðhöndlun en vín og bjór, og við teljum satt best að segja að slíkt mismuni drykkjum með 22% áfengisinnihald eða hærra. Sterkir drykkir væru þannig ekki eins sjáanlegir og aðgengilegir viðskiptavinum og þar af leiðandi myndu þeir standa höllum fæti hvað samkeppni varðar borið saman vði aðrar tegundir áfengis," segir í umsögninni.

Misskilningur um sérverslanir

Í umsögninni kemur jafnframt fram að samtökin telji óljóst hvort frumvarpið heimili opnun sérverslana. Þessar áhyggjur hafa jafnframt verið viðraðar í opinberri umræðu. Hið rétta er að frumvarpið heimilar opnun slíkra verslana og því verður að telja líklegt að þessi þáttur umsagnar Skosku viskísamtakanna byggi á misskilningi um efni frumvarpsins.

Vilhjálmur Árnason staðfestir að svo sé í samtali við Viðskiptablaðið. „Já, það er ekkert sem kemur í veg fyrir það að það verði opnaðar sérverslanir. Einu takmarkanirnar á hverjir megi selja áfengi að fengnu smásöluleyfi frá sveitarstjórn eru þær sem koma fram í 21. grein frumvarpsins. Það eru söluturnar, ísbílar, myndbandaleigur, sjálfsalar og annað sambærilegt sem fellur undir skilgreininguna samkvæmt ÍSAT flokkun."

Sælkeraverslanir fylgjast grannt með

Aðspurður hverju það sæti að þessi misskilningur hafi komið upp í umræðum í tengslum við frumvarpið segist Vilhjálmur ekki kunna skýringar á því.

Í Viðskiptablaðinu í dag er greint frá því að aðilar sem hafi áhuga á opnun sérverslana hafi sett sig í samband við Vilhjálm og afar sennilegt sé að slíkar verslanir verði opnaðar hér á landi hljóti frumvarpið brautargengi. Þá vonist eigendur sælkeraverslana og ýmissa verslana í litlum bæjarfélögum á landsbyggð til að það verði samþykkt, enda telji þeir að það myndi auka þjónustu við viðskiptavini þeirra og lífga upp á verslunina.