Arkitektastofa í Edinborg í Skotlandi, Graeme Massie Architects, hlaut fyrstu verðlaun í A-hluta hugmyndasamkeppni sem Faxaflóahafnir sf. efndu til vegna skipulags Gömlu hafnarinnar og Örfiriseyjar í Reykjavík. Samstarfsaðili hennar á Íslandi er ráðgjafarfyrirtækið Alta ehf.  Úrslitin voru tilkynnt við athöfn í Víkinni sjóminjasafni nú síðdegis um leið og sigurlaunin voru afhent, 7,5 milljónir króna.

Í tilkynningu kemur fram að höfundar tveggja tillagna deildu 2.-3. sæti og hlutu hvorir um sig tvær milljónir króna í verðlaun: annars vegar arkitektarnir Björn Ólafs og François Perrot,  hins vegar Þorsteinn Helgason, Gunnar Örn Sigurðsson, Páll Gunnlaugsson og Valdimar Harðarson arkitektar FAÍ hjá arkitektastofunni ASK arkitektum ehf. Viðurkenningu/innkaup fyrir athyglisverða tillögu hlaut Arkibúllan ehf., 500.000 krónur.

•Samkeppnin var tvískipt. Alls barst 51 tillaga, þar af 12 tillögur í A-hlutann, sem var ætlaður hönnuðum og öðru fagfólki og undirbúin í samvinnu við Arkitektafélag Íslands. B-hlutinn var hins vegar opinn öllum án nokkurra skilyrða og þar bárust 39 tillögur. Heildarupphæð verðlauna var 14 milljónir króna, þar af 12 milljónir króna fyrir A-hluta samkeppninnar.