Lars Christensen, aðalhagfræðingur Danske Bank, segir að grein Cyrusar Sanati á vef Fortune sé „skot yfir markið“.

Grein Sanatis ber yfirskriftina „Ísland er tifandi tímasprengja í Evrópu – aftur“. Greinarhöfundur segir að Íslendingar hafi lítið gert frá bankahruni 2008 til þess að fást við þann efnahagsvanda sem hefur steðjað að þjóðinni. Í staðinn hafi yfirvöld og bankarnir beitt meðulum til þess að fresta sársaukanum en ekki lækna sjúkdóminn. Fjármagnshöft séu enn við lýði. Með því séu almenningur og lífeyrissjóðir neyddir til að fjárfesta einungis á Íslandi.

„Já, það eru mörg erfið úrlausnarefni sem blasa við Íslandi og ég hef ennþá áhyggjur af langtíma-neikvæðum afleiðingum fjármagnshaftanna,“ segir Lars Christensen, aðalhagfræðingur Danske Bank, í skriflegu svari til Viðskiptablaðsins, aðspurður um skoðun hans á greininni. „Hins vegar er Ísland ekki tifandi tímasprengja og ég á erfitt með að sjá fyrir mér að Ísland verði miðpunktur kreppu sem muni breiðast út um allan heim eins og vangaveltur eru um í greininni,“ segir hann.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér að ofan undir liðnum tölublöð .