Landbúnaðarráðherra Skotlands hefur greint frá því að þarlend yfirvöld hyggist banna ræktun erfðabreytts matvælis.

Richard Lochhead sagði að skoska ríkisstjórnin væri ekki tilbúin að taka neina áhættu þegar kæmi að matvælaframleiðslu þjóðarinnar og mun hann fara fram á að Skotland fái undanþágu frá Evrópureglum sem heimila erfðabreytta ræktun.

Leiðtogar bændasamtaka í Skotlandi hafa lýst yfir miklum vonbrigðum með ákvörðun stjórnvalda. Samkvæmt reglum Evrópusambandsins þurfa yfirvöld að gefa leyfi fyrir erfðabreyttum matvælum áður en hægt er að ráðast í ræktun þeirra, en fyrr á árinu var sett ákvæði í lögin sem leyfir aðildarþjóðum ESB að takmarka eða banna slíka ræktun.

Lochhead sagði að Skotland væri þekkt um allan heim fyrir „fallega náttúru“ og að með því að banna ræktun erfðabreyttra matvæla myndi það styrkja ímynd þjóðarinnar sem grænnar þjóðar.

Erfðabreytt matvæli hafa verið ansi umdeild undanfarin ár þrátt fyrir að flestar vísindarannsóknir sýni að þau séu ekki óholl.