Ísland hefur nú forsæti í ráðherraráði EFTA-ríkjanna. Nú stendur yfir fundur ríkjanna í Genf, eins og áður hefur komið fram. Þar hefur meðal annars borist til tals áhugi Skota um að ganga í EFTA að því er fram kom í frétt Ríkisútvarpsins um málið.

Skotar íhuga nú aðild að EFTA í kjölfar ákvörðunar Breta að ganga úr Evrópusambandinu. Aðildarríki EFTA eru; Ísland, Liechtenstein, Sviss og Noregur. Samkvæmt frétt RÚV eru íslensk stjórnvöld „opin“ fyrir því að Skotar sæki um aðild að EFTA.

Haft er eftir Lilju Alfreðsdóttur, utanríkisráðherra Íslands, að Skotar hafi heimsótt Íslendinga í október til að kynna sér EFTA samtökin og EES-samninginn. Að hennar sögn er mikill áhugi á samtökunum um þessar mundir. Hún bendir einnig á að þetta sé ákveðið innanríkismál hjá Skotum og í raun væri hægt að túlka þreyfingar Skota sem dulbúna sjálfstæðisyfirlýsingu.

Skotar eru ekki sjálfstætt ríki heldur eru þeir hluti af Bretlandi og því þurfa ákveðnar breytingar að eiga sér stað til þess að Skotar geti gengið í EFTA, að sögn Lilju. Aðild að EFTA myndi veita Skotum aðild að innri markaði Evrópusambandsins. Meirihluti Skota kaus á þá leið að yfirgefa ekki Evrópusambandið.