Viðskiptasendinefnd fyrirtækja í ferðaþjónustu er nú á ferð um Skotland undir forystu Útflutningsráðs Íslands.

„Við höfum fengið mjög góðar viðtökur hjá skosku fyrirtækjunum og þau eru opin fyrir frekari viðskiptum,“ segir Þorleifur Þ. Jónsson hjá Útflutningsráði sem fer fyrir hópnum. „Hér eru mög tækifæri og mikill áhugi á íslensku fyrirtækjunum. Skotar sjá Íslandi í jákvæðu ljósi og eru sem fyrr reiðubúnir til viðskipta.“

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Útflutningsráði.

Þar segir jafnframt að ferðin til Skotlands sé liður í markaðssetningu íslenskra ferðaþjónustufyrirtækja á Bretlandi en Útflutningsráð hefur staðið fyrir nokkrum ferðum á breska markaðinn sl. ár, auk sendinefndar til Kanada í vor.

„Bretlandsmarkaður er stærsti markaðurinn fyrir ferðaþjónustufyrirtæki og býður upp á mikla möguleika,“ segir Þorleifur.

„Í kvöldverðarborði með ræðismanni Íslands í Edinborg, Cameron Buchanan, kom fram mikill áhugi á að sendinefnd skoskra fyrirtækja héldi til Íslands sem fyrst til að styrkja og efla tengslin.“

Fyrirtækin sem taka þátt í ferð viðskiptasendinefndar til Skotlands eru Fosshótel, Iceland Excursions, Iceland Travel, Icelandair, Íshestar Travel, Reykjavik Hotels, Þemaferðir og Vesturferðir. Liggur leiðin bæði til Glasgow og Edinborgar þar sem fyrirtækin eiga fundi með söluaðilum í ferðaþjónustu. Auk skipulagðra vinnufunda sem komið er á með heimamönnum er íslensku fyrirtækjunum boðið upp á fræðslu um skoska markaðinn.