Skotar kusu með töluverðum meirihluta gegn úrsögn Bretlands úr Evrópusambandinu, en afleiðingar úrsagnarinnar hafa valdið sprengingu í eftirspurn eftir viskí.

Skotar ekki að drekkja sorgum sínum

Eftirspurnin er þó ekki drifin áfram af Skotum að drekkja sorgum sínum, heldur hefur hagstæðara gengi breska pundsins drifið áfram eftirspurn erlendis frá og meðal ferðamanna eftir viskíframleiðslu landsins.

Nú hefur viskíflaskan lækkað um 10% eða meira á erlendum mörkuðum frá því fyrir þjóðaratkvæðagreiðsluna í kjölfar enn frekari lækkunar pundsins eftir stýrivaxtalækkun Englandsbanka.

„Það hefur verið brjáluð aukning í sölu, 30 til 40% aukning,“ segir Dawn Davies sem sér um innkaup hjá heildsalanum The Whisky Exchange.

Framleiðendur börðust fyrir áframhaldandi veru í ESB

Skoskt viskí er stærsta útflutningsvara Bretlands í flokki matar og drykkjar, og skilar hann meira en 4 milljörðum punda í útflutningstekjum á ári, en á síðasta ári minnkaði sala erlendis um 2,8%. Kom það sér illa fyrir stóra framleiðendur eins og Diageo Plc sem framleiðir Johnnie Walker og Pernod Richard SA sem framleiðir Chivas Regal.

Viskíframleiðendur börðust gegn úrsögn með þeim rökum að sameiginlegur markaður ESB væri nauðsynlegur fyrir fyrirtæki þeirra, en veiking pundsins hefur styrkt rekstur þeirra umtalsvert. Sést það til að mynda í því að hlutafé í Diageo hefur hækkað um 19% síðan í þjóðaratkvæðagreiðslunni.

Mikill sparnaður fyrir kaupendur erlendis frá

Á síðustu árum hafa margir viðskiptavinir farið að kaupa frekar viskí frá Írlandi eða bandarískt bourbon, sem og stjórnvöld í Kína, sem áður var einn stærsti og mest vaxandi markaður fyrir skoskt viskí, hafa reynt að hamla sölu á dýrum gjafavarningi.

Sést vel í verslun Whisky Exchange í miðborg Lundúna hve sparnaðurinn er mikill fyrir þá sem versla í evrum, dölum eða júönum. Flaska af Arran 2000 sem kostaði því sem samsvarar 105 Bandaríkjadölum 23. júní síðastliðinn kostar nú 93,18 dali.

Glen Grant 1968 hefur lækkað niður 646,11 dali úr 728,16 dali. Dýrasta flaskan í versluninni, Springbank 1919 hefur lækkað um nálega 9.000 dali, og kostar nú 72.254 dali.

Um 70% viðskiptavina verslunarinnar eru ferðamenn og á hún orðið í erfiðleikum með að fylla aftur á hillur sínar. Eru dýrari flöskurnar sérstaklega vinsælar.