Lögreglan í Ottawa leitar byssumanns sem skaut mann við þinghús borgarinnar kl. 10 að staðartíma. Að minnsta kosti einn maður er særður eftir árásina. Forsætisráðherra landsins hefur verið komið í skjól og er sagður heill á húfi.

Sjónarvottar segjast hafa séð mann vopnaðan riffli hlaupa inn í þinghúsið eftir árásina. Þinghúsinu hefur verið lokað og er byssumannsins leitað inni í húsinu og í næsta nágrenni.

Maðurinn sem var skotinn er kanadískur hermaður og hefur hann verið fluttur á sjúkrahús til aðhlynningar. Tveir þingmenn hafa sagt frá því að byssumaðurinn sé látinn, en þær fregnir eru óstaðfestar.