Skotland er það smáríki í Vestur-Evrópu sem stendur sig verst þegar kemur að auðsköpun, menntun, heilsufari og atvinnuþátttöku. Þetta kemur fram í mælingu á svokallaðri velgengnivísitölu sem var gerð fyrir hagsmunasamtök eigenda smárra fyrirtækja á Bretlandseyjum (e. Federation of Small Business [FSB]). Skotland fellur einnig um sæti í lista Efnahags- og framfararstofnunarinnar (OECD) yfir þróuðustu ríki heims og er í því sautjánda.

Velgengnivísitalan mælir stöðu mála þegar kemur að auðsköpun, menntun, heilsufari og ástandi á atvinnumarkaði í nokkrum löndum í tíu Evrópuríkjum sem hafa færri en níu milljónir íbúa. Haft er eftir John McLaren, sem gerði úttektina, á fréttavef breska ríkisútvarpsins (BBC) að ástæðuna fyrir slakri frammistöðu Skota megi fyrst og fremst rekja til bágs heilsufars og lágs meðalaldurs íbúa landsins í samanburði við önnur lönd. En þrátt fyrir að heilsufarið sé tekið úr myndinni bendir McLaren á að Skotar yrðu neðarlega listanum eða í fimmta eða sjötta sæti. BBC hefur jafnframt eftir Andy Wilcox, sem starfar hjá FSB í Skotlandi, að niðurstaða úttektarinnar sýni svo ekki svo ekki verði um deilt að Skotland sé "versta smáríki í vesturhluta Evrópu" og brýn nauðsyn sé á því að grípa til aðgerða.