Samskipti Bretlands og Íslands voru rædd á fundi Össurar Skarphéðinssonar iðnaðarráðherra og James Murphy, Skotlandsmálaráðherra bresku ríkisstjórnarinnar, í dag. "Ég setti fram þá skoðun að viðbrögð bresku ríkisstjórnarinnar væru gjörsamlega óafsakanleg," sagði Össur í samtali við Viðskiptablaðið og vísaði þar til lagasetningar breskra stjórnvalda á grundvelli hryðjuverkalaga.

Murphy kom óvænt til landsins og að eigin frumkvæði. Hann sagði í samtali við BBC að hann myndi gera það sem í hans valdi stæði til að endurheimta það fé sem Skotar hefðu lagt inn í íslenska banka.

"Hann kom væntanlega til að kynnast viðhorfum okkar og finna á vettvangi hvernig staðan væri hér og hvaða viðhorf við hefðum en það voru engin sérstök skilaboð sem hann kom með," sagði Össur, inntur eftir því, hvað Murphy hefði haft fram að færa á fundinum í dag.

Murphy heldur heim á leið í kvöld.