*

sunnudagur, 1. ágúst 2021
Innlent 21. október 2014 19:11

Skotveiðifélag Íslands vill fleiri daga á rjúpu

Skotveiðifélag Íslands segir veiðidaga á rjúpu of fáa. Fækkun leyfilegra veiðidaga hafi ekki dregið úr veiði á rjúpu.

Jóhannes Stefánsson
Þúsundir veiðimanna munu halda til veiða um næstu helgi.

Skotveiðifélag Íslands (Skotvís) telur rétt að fjölga leyfilegum veiðidögum rjúpu úr 12 í 18. Er það einkum vegna þess að ekki hefur tekist að draga úr rjúpnaveiðum þrátt fyrir að fjöldi leyfilegra veiðidaga hafi verið fækkað úr 69 í 9. Þetta kemur fram í tilkynningu á vef Skotvís.

Með öðrum orðum segir Skotvís að aukið svigrúm veiðimanna til að halda til veiða yfir stærra tímabil hafi ekki áhrif á það hversu mikið sé veitt. Árangur sem hafi náðst í þá átt að draga úr veiðum á rjúpu megi einkum rekja til sölubanns á rjúpu sem var lögfest árið 2005.

Telja veiðar ekki einu orsök viðbótaraffalla

Í greinargerð Skotvís vegna málsins segir að ágreiningur sé uppi á milli Náttúrustofnunar Íslands og Skotvís um það hver áhrif veiða á rjúpnastofninn séu. Náttúrustofnun byggi á þeirri tilgátu að öll veiði bætist við náttúruleg afföll rjúpnastofnsins, sem orsakist meðal annars af sjúkdómum eða fæðuskorti. Það telji Skotvís hinsvegar að sé rangt, og að viðbótarafföll skýrist af fleiri þáttum en veiði einni og sér. Skotvís leggur til að frekari rannsóknir verði gerðar á sambandi veiða og viðbótaraffalla.

Rjúpnaveiðitímabilið hefst þann 24. október næstkomandi og er rjúpnastofninn í uppsveiflu á milli ára. Álitið er að veiðiþol stofnsins séu 48.000 fuglar í ár, borið saman við 41.000 fugla í fyrra.

Stikkorð: Veiði Skotvís Rjúpnaveiði