Skoðun, dótturfélag Dagsbrúnar, sem keypti 51% hlutarfjár í Kögun þann 22. mars hefur gert yfirtökutilboð í allt hlutafé félagsins, samkvæmt tilkynningu til Kauphallarinnar.

Verð sem hluthöfum er boðið er 75 krónur á hlut og samsvarar það hæsta verði sem Skoðun og tengdir aðilar hafa greitt fyrir hluti í félaginu síðastliðna sex mánuði.

Samkvæmt hlutahafaskrá á Skoðun 51% hlut í Kögun, Síminn á 26,9% hlut og Exista á 11,0%. Þar á eftir kemur Kaupþing banki með 1,8% eignarhlut.

Gildistími yfirtökutilboðsins er frá 18. apríl til klukkan 16 þann 16. maí. Umsjón með yfirtökutilboðinu hefur Straumur-Burðarás.