Gengi sænsku krónunnar féll gagnvart evru og Bandaríkjadal á gjaldeyrismörkuðum í morgun í kjölfar þess að birtar voru hagtölur sem sýndi minni verðbólgu en gert var ráð fyrir. Tölurnar auka á væntingar um að sænski seðlabankinn komi til með lækka stýrivexti á næstunni.

Vísitala neysluverðs mældist 4,3% á ársgrunvelli í ágústmánuði en spár höfðu gert ráð fyrir mælingu upp 4,4%. Hækkunin milli mánaða nam 0,2% var meiri en hagfræðingar gerðu ráð fyrir en hinsvegar vegur upp á móti að komið hefur í ljós að hagstofa landsins ofmat verðbólgu á fyrri hluta ársins. Ástæðuna er að finna í villu vegna útreikninga á skóverði frá janúarmánuði til júlí. Endurmetin vísitala neysluverðs í júlí lækkaði því um 30 punkta og einnig var hún lækkuð um tíunda hluta af prósentustigi fyrir apríl, maí og júní.

Sænski seðlabankinn hækkaði stýrivexti í 4,75% í síðustu viku og var ákvörðunin réttlætt með því að vísa nauðsyn þess að stemma stigum við vaxandi verðbólguvæntingum. Hinsvegar gáfu forráðamenn bankans til kynna að þriggja ára hækkunarferli kynni að vera að renna sitt skeið á enda, þrátt fyrir að verðbólga sé enn vel yfir 2% markmiði seðlabankans. Ný mæling á vísitölu neysluverðs styrkir jafnframt væntingar um vaxtalækkun í náinni framtíð. Dow Jones-fréttaveitan hefur eftir sérfræðingum UBS að líklegt sé að sænski seðlabankinn muni nú lækka verðbólguspá sína og í ljósi þess er ekki óvarlegt að ætla að næsta ákvörðun sem tekin verði um stefnu stýrivaxta verði lækkun.