Markaðsvirði skráðra hlutabréfa í eigu Baugs Group í smásölufyrirtækjum í Bretlandi hefur lækkað um helming frá áramótum, meðal annars í kjölfar ótta um að heimilin muni halda að sér höndum í neyslu, samkvæmt frétt breska dagblaðsins Telegraph.

Í fréttinni segir að virði skráðra eigna Baugs hafi lækkað um meira en 100 milljónir punda, samkvæmt ágiskunum miðlara, eða 12,6 milljarða króna. Baugur á stóra hluti í félögum á borð við: Debenhams, French Connection, Moss bros og Woolworths.

Gunnar Sigurðsson, forstjóri Baugs Group, segir í samtali við Viðskiptablaðið ýmislegt rangt með farið í frétt Telegraph varðandi fjárhæðir – þó vitaskuld hafi hlutabréfin lækkað mikið - og segir Baug vera í góðri stöðu með mikið lausafé. Hann bendir á að skráð félög séu í minnihluta í eignasafni Baugs.    “Stærsti hluti eignasafns okkar er í óskráðum “retail” félögum. Þetta sem þú nefndir er minni hluti af okkar eignasafni. Kannski 10%,” segir hann.

Gunnar segir að almennt hafi smásölufyrirtæki lækkaði mikið á árinu. Meðal annars vegna áhyggju markaðarins af geiranum. Enn fremur telur hann að fagfjárfestar hafi tekið skortstöður í smásölufyrirtækjum sem hafi haft áhrif til lækkunar “umfram efni, að okkar mati,” segir hann.

Þetta eru strategískar fjárfestingar fyrir Baug, að sögn Gunnars, hugsaðar til lengri tíma. Stefna fjárfestingafélagsins er að ef bréfin lækka, er keypt meira. “Svo lengi sem við höldum okkar trú á félögin og finnst þau enn þá áhugaverðir kostir. Þessar breytingar gera ekkert annað en að auka tækifærin fyrir okkur.”