Skráð atvinnuleysi í júlí mældist 3,4% og breyttist ekki frá júní. Að jafnaði var 6.831 einstaklingur á atvinnuleysisskrá í júlí og fjölgaði um 108 frá júní. Þetta er meðal þess sem fram kemur í nýrri skýrslu Vinnumálastonunar.

Alls voru 2.662 fleiri á atvinnuleysisskrá í júlí 2019 en í júlí árið áður. Alls voru 3.614 karlar að jafnaði atvinnulausir í júlí og 3.217 konur og var atvinnuleysi 3,3% meðal karla og 3,7% meðal kvenna. Atvinnuleysi breyttist ekki milli mánaða hjá körlum en jókst um 0,1 prósentustig hjá konum. Gera má ráð fyrir að skráð atvinnuleysi verði svipað eða aukist lítils háttar í ágúst frá júlí eða á bilinu 3,4% til 3,6%," segir í skýrslunni.

Í júlí tóku 435 einstaklingar þátt í úrræðum eða starfsþjálfunarverkefnum. Um 72 einstaklingar fóru í ýmiss konar grunnúrræði. Alls fóru 659 einstaklingar af skrá í júlímánuði, þar af fóru 333 í vinnu eða um 51%. Alls komu inn 133 ný störf sem auglýst voru í vinnumiðlun hjá Vinnumálastofnun í júlí að því er fram kemur í skýrslunni.