Skráð atvinnuleysi var 3,4% í júní og lækkaði um 0,2% milli mánaða. Atvinnuleysi hefur farið hækkandi það sem af er ári samhliða versnandi efnahagshorfum og 1.000 manna gjaldþroti Wow air í lok mars, og fór hæst í 3,7% í maí. Þetta kemur fram í Hagsjá Landsbankans í morgun.

Staðan á vinnumarkaði er sögð skárri en við hafi mátt búast, en töluverð óvissa sé enn um þróun mála næstu árin.

Sem fyrr er langtum hæsta skráða atvinnuleysið á Suðurnesjum, rúm 6%, en næstmest á höfuðborgarsvæðinu, tæp 4%.

Hlutfall erlends starfsfólks hefur farið sífellt vaxandi, og í dag er rúmlega þriðji hver þeirra sem skráðir eru atvinnulausir af erlendu bergi brotinn.

Langtímaatvinnuleysi hefur farið samfellt lækkandi frá 2013, þegar hátt í 40% atvinnulausra höfðu verið það í yfir ár, en það hlutfall er undir 20% í dag.