Lettnesku sælgætisfyrirtækin Staburadze og Laima, verða skráð í kauphöllina í Riga (RSE) innan skamms, segir í frétt Baltic Business Weekly, en íslenska fjárfestingafélagið Nordic Partners er stærsti hluthafinn í báðum fyrirtækjunum.

Viðskiptablaðið greindi frá því í nóvember að Nordic Foods, sem er félagið sem heldur utan um eignarhlutina í Laima og Staburadze, væri að skoða möguleika á því að skrá fyrirtækin í RSE. Kauphöllin mun nú vera að vinna að því að skrá rúmlega þrjár milljónir hluta í Staburadze og 6,48 milljónir hluta í Laima, en stjórn RSE á þó eftir að samþykkja skráninguna, segir í fréttinni.

Nordic Partners munu hafa stutt við skráninguna með það að markmiði að auka við hluti sína í fyrirtækjunum og til þess að styrkja hluthafahópinn. Þar að auki munu hluthafar með minni hluti eiga möguleika á að hagnast á sölu hluta sinna í kauphöllinni, í ljósi þess að afkoma fyrirtækjanna hefur verið með besta móti að undanförnu, segir talsmaður Nordic Partners, Ingars Rudzitis.

Velta Laima nam 3,1 milljörðum króna árið 2005, sem er 19% aukning frá árinu áður. Hagnaður fyrirtækisins jókst um 64% á sama tíma og nam 153,6 milljónum króna. Velta Staburadze nam rúmum milljarði króna árið 2005, sem er nánast óbreytt frá árinu áður, en hagnaður fyrirtækisins dróst saman um 36,4% og nam 79,5 milljónum króna, að því er kemur fram í fréttinni.

Nordic Foods á 6,55% hlut í Laima og 60,7% hlut í Staburadze. Fyrirtækin eru hluti af NP Confectionary-samstæðunni, sem einnig inniheldur lettnesku fyrirtækin Gutta, Eurofood, Saldumu Tirdznieciba og pólska fyrirtækið Lider Artur.

NP Confectionary er 97% í eigu íslenska fjárfestingafélagins Nordic Partners, þar á meðal Gísla Reynissonar, en stjórnarformaður Nordic Foods, Juris Jonatis, á 3% hlut í samstæðunni.