Heimavellir hafa skipt út Kviku banka og ráðið Landsbankann í staðinn til þess að leiða söluferli á hlutum leigufélagsins við skráningu á hlutabréfamarkaðinn. Frá þessu er greint í Markaðnum en skráning Heimavalla í Kauphöllina mun seinka um fjórar vikur og því stefnt að því að hún fari fram í byrjun maí.

Tæpt ár er frá því að Heimavellir sömdu við Kviku og Íslandsbanka um að sjá um skráningu félagsins á markað.

Heimavellir reka um 2.000 fasteignir og hafa vaxið mikið á síðustu árum. Á síðasta ári nam hagnaður félagsins 2,7 milljörðum og jókst um 500 milljónir frá árinu 2016.