Icelandair Group sendi í síðustu viku frá sér tilkynningu um að tekin hefði verið sú ákvörðun að fresta um óákveðinn tíma viðbótarskráningu hlutabréfa Icelandair Group í kauphöllina í Ósló í Noregi. Tafir á tvíhliða skráningu félagsins hefur áhrif á önnur félög hér á landi, og þá helst Eimskip sem hyggur á skráningu hér heima og erlendis.

Eins og Viðskiptablaðið hefur áður fjallað um var upphaflega stefnt að því að skrá Icelandair Group á markaði í Noregi í fyrrahaust en því var frestað fram á vor á þessu ári. Sem fyrr segir hefur því nú verið frestað og má helst rekja ástæður þess til gjaldeyrishaftanna og tafa á úrlausnum frá Seðlabankanum vegna þeirra. Þannig herma heimildir Viðskiptablaðsins að illa gangi að fá skýr svör frá Seðlabanka Íslands um það hvernig standa skuli að skráningu.

Sem fyrr segir eru þessar tafir á skráningu í Noregi að hafa áhrif á önnur fyrirtæki. Samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins horfa eigendur og stjórnendur Eimskips til þess að skrá félagið einnig í Noregi. Stjórnendur Eimskips eru þó að bíða eftir því hvernig skráningu Icelandair Group í Noregi verður háttað. Félögin eru að mörgu leyti lík, rekstrarfélög með dýrar eignir í rekstri og einbeita sér að flutningsstarfsemi — þótt himinn og haf séu á milli, í orðsins fyllstu merkingu, á öðrum þáttum rekstursins.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðinum tölublöð hér að ofan.