Stjórn FL Group hf. hefur ákveðið að óska eftir skráningu Icelandair Group í Kauphöll Íslands. Undirbúningur skráningarinnar er hafinn og stefnt er að því að ljúka því ferli á fyrri hluta þessa árs. Stjórn FL Group vill koma Icelandair Group í dreifða eignaraðild og gefa almenningi og fagfjárfestum þannig kost á að eignast beint hlut í félögum tengdum flugrekstri. Blaðamannafundur vegna málsins stendur nú yfir.

Í tilkynningu til Kauphallarinnar kemurfram að FL Group hefur tekið miklum breytingum á liðnum misserum og er nú fjárfestingarfélag sem er reiðubúið til að veita Icelandair Group áfram trausta kjölfestu. Kaupþing banki og Íslandsbanki verða umsjónaraðilar með útboðs- og skráningarferlinu. Stefnt er að því að frekari útfærsla á söluferlinu og skráningu Icelandair Group muni liggja fyrir á vormánuðum.

Þá hefur stjórn FL Group ákveðið að setja Kynnisferðir og Bílaleigu Flugleiða í sölumeðferð en Ferðaskrifstofa Íslands var nýlega seld. Fyrirtækjaráðgjöf Íslandsbanka sér um sölu þessara félaga. Önnur félög innan FL Travel Group verða færð inn í Icelandair Group og FL Travel Group lagt niður í framhaldinu. Fyrirtækin Bláfugl, Flugflutingar og Fjárvakur verða einnig færð undir Icelandair Group sem mun enn frekar styrkja stöðu félagsins sem alhliða fyrirtækis á sviði alþjóða flug- og flutningastarfsemi.

Þau félög sem munu mynda Icelandair Group eftir þessar breytingar eru: Icelandair, Icelandair Cargo, Loftleiðir Icelandic, Icelandair Technical Services (ITS), Icelandair Ground Services (IGS), Bláfugl, Flugflutningar, Fjárvakur, Flugfélag Íslands, Icelandair Hotels og Íslandsferðir. Jón Karl Ólafsson er forstjóri Icelandair Group.

"Þessar breytingar endurspegla áherslu FL Group á fjárfestingar. Við viljum gefa almenningi og fagfjárfestum kost á að eignast hlut í Icelandair Group, félagi í góðum rekstri sem er að auki þjóðhagslega mikilvægt. Vaxtartækifæri Icelandair Group eru fjölmörg á alþjóðlegum mörkuðum og bindum við miklar vonir við skráningu félagsins á markað.

Við teljum að FL Group verði eftir þessar breytingar enn betur í stakk búið til þess að vinna úr núverandi og nýjum fjárfestingarverkefnum," segir Hannes Smárason, forstjóri FL Group í tilkynningu félagsins.

?Það eru spennandi tímar framundan hjá Icelandair Group. Reksturinn gengur vel og við horfum til þess að geta stóraukið umsvif félagsins. Þessi vaxtartækifæri snerta allan reksturinn, leiðakerfið, leiguflug og fraktflug. Með skráningu Icelandair Group í Kauphöll Íslands hefst nýr kafli í sögu þessa trausta félags sem er spennandi að taka þátt í," segir Jón Karl Ólafsson, forstjóri Icelandair Group.