Almenna leigufélagið mun í næstu viku halda lokað skuldabréfaútboð þar sem fjárfestum gefst kostur á að kaupa skuldabréf sem tryggð eru með veði í fasteignasafni félagsins. Um er að ræða verðtryggt jafngreiðslubréf til þrjátíu ára, sem skráð verður á aðalmarkað Nasdaq við útgáfu. Landsbankinn hefur umsjón með útboðinu og skráningu skuldabréfanna í Kauphöll.

Skuldabréfaútboðið er liður í heildarendurfjármögnun á skuldum Almenna leigufélagsins. Samhliða því hefur félagið lokið endurfjármögnun á láni hjá Landsbankanum og gert fjögurra milljarða króna lánasamning við bandarískan fjárfestingarsjóð fyrir milligöngu Fossa markaða.

Endurfjármögnunin mun hafa í för með sér umtalsverða lækkun á fjármagnskostnaði félagsins segir í fréttatilkynningu frá félaginu. Að henni lokinni verða allar skuldir Almenna leigufélagsins tryggðar með veði í fasteignasafni félagsins, alls um tólfhundruð íbúðum sem að stærstum hluta eru staðsettar á höfuðborgarsvæðinu.

Félagið hefur sett upp tryggingafyrirkomulag í tengslum við skuldabréfaútgáfuna sem gerir því kleift að veðtryggja skuldir sínar með þessum hætti.

Lögfræðistofan Íslög verður veðgæsluaðili og mun gæta hagsmuna veðhafa í tengslum við tryggingafyrirkomulagið og KPMG hefur það hlutverk sem óháður aðili að staðfesta verðmæti veðsafns og útreikning á fjárhagslegum og sérstökum kvöðum vegna veðanna.

„Heildarendurfjármögnun á skuldum Almenna leigufélagsins er mikilvægur liður í undirbúningi félagsins fyrir skráningu á markað, sem stefnt er að innan tveggja ára,“ segir María Björk Einarsdóttir, framkvæmdastjóri Almenna leigufélagsins.

„Við leggjum metnað í að setja upp faglega umgjörð utan um fjármögnun félagsins, sem gerir okkur kleift að bjóða lánveitendum veð í mjög stóru safni góðra fasteigna. Þá er ánægjulegt að sjá að stórir erlendir fjárfestar hafa áfram trú á íslenskum fyrirtækjum og efnahag. Við fögnum því að hafa fengið slíka aðila í hóp þeirra öflugu fjárfesta sem koma að fjármögnun félagsins.“

Valdimar Ármann, forstjóri GAMMA Capital Management: „Það er ánægjulegt fyrir eigendur Almenna leigufélagsins hversu vel hefur tekist til með þróun og uppbyggingu félagsins. Almenna leigufélagið er staðfesting á vel heppnuðum fjárfestingum sjóða GAMMA á íslenskum fasteignamarkaði.“