Georg Lúðvíksson, forstjóri Meniga, segir hluthafa Meniga vera einhuga um að halda áfram uppbyggingu félagsins á næstu árum. Engu síður sé ljóst að áhættufjárfestar sem fjárfest hafi í félaginu muni á einhverjum tímapunkti vilja fá ávöxtun á það fé sem þeir hafi lagt í félagið.

„Ef mjög vel tekst til sé ég fyrir mér að við getum alveg verið skráð á markað. Við erum þegar komin í stærð á við meðalstórt félag á First North markaði á Norðurlöndunum. Ef við myndum skrá félagið á markað, myndum við líklega horfa á London sem er höfuðborg fjártækni í Evrópu,“ segir Georg.

„En ef það gengur vel en ekki frábærlega, er sala á fyrirtækinu kannski líklegri miðað við það sem er að gerast á markaði.“ Evrópsku bankarnir Unicredit og Swedbank fjárfestu í Meniga fyrir þrjár milljónir evra hvor á þessu ári. Alls er búið að fjárfesta fyrir um 30 milljónir evra í Meniga frá stofnun fyrirtækisins. Georg segir að stofnendur félagsins eigi í dag innan við fjórðungshlut í því, en verðmæti hlutarins hafi aukist með hverri hlutafjáraukningu.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .