Við vonum núna að við förum á markað á 2013 uppgjörinu. Hvort það verður í vor eða eftir sumarið veit ég ekki. Við vonumst til þess að þau mál sem hafa tafið okkur leysist á næstu tveimur mánuðum. Við höfum ekkert verið að fela það hvað það gengur út á. Seðlabankinn hefur verið með erlenda fjármögnun Reita til skoðunar og hefur haft þá sýn að ákveðnir hlutir þar gangi gegn gjaldeyrislögum. Hinn erlendi1 lánveitandi hefur ekki sömu sýn á það. Þannig að það hefur tekið tíma að koma mönnum á einn stað hvað þetta varðar. Á meðan þessi ágreiningur er uppi þá fer maður ekki með félagið í skráningu,“ segir Guðjón Auðunsson, forstjóri Reita, um það hvenær búast megi við að félagið verði skráð á markað.

Áður hefur verið fjallað um áætlanir félagsins og stóð meðal annars til að skrá félagið í byrjun síðasta árs. Vonir standa nú til að skráning fari fram í apríl eða maí, annars verður skráningu frestað fram á haust. Slíkt velti einnig á afstöðu núverandi eigenda og þeirra sem munu koma að félaginu eftir að deilan við Seðlabankann er afgreidd. Þeir aðilar á markaði sem Viðskiptablaðið hefur rætt við telja það ólíklegt að skráning fari fram fyrr en í fyrsta lagi í haust.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum tölublöð hér .