„Það tekur alltaf nokkra mánuði frá því að allt er sett á fullt, og við erum ekki komin þangað. Sumarið er síðan ódrjúgt. Ef ákveðið yrði að drífa sig á markaði eins fljótt og við getum þá væri sennilega hægt að skrá félagið fyrir áramót,“ segir Einar Örn Ólafsson, forstjóri Skeljungs, um skráningu félagsins í Kauphöll.

Greint var frá afkomu Skeljungs árið 2011 í síðustu viku. Þá var minnst á mögulega skráningu félagsins. Einar Örn segir nærtækast að líta til næsta árs í þeim efnum. Ákvörðun um skráningu hefur ekki verið tekin en ljóst er að til þess er litið.

Forstjórinn segir að verið sé að stilla félagið af með það fyrir augum að gera það hæft til skráningar. Aðspurður hvort Skeljungur sé skráningarhæfur í dag segir Einar Örn að tæknilegar ástæður liggi meðal annars fyrir því að svo sé ekki. Til að mynda hefur félagið ekki gert uppgjör samkvæmt IFRS stöðlum en það sé til skoðunar.

Nánar er fjallað um málið í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér að ofan undir liðnum Tölublöð.