Á síðasta ári fjölgaði félögum á aðalmarkaði Kauphallarinnar úr 13 í 16 með skráningu Eikar, Reita og Símans á markað. Undir lok ársins voru bundnar vonir við það að allt að átta félög yrðu skráð á aðalmarkaðinn og norræna First North hliðarmarkaðinn á nýju ári, sem yrði að mörgu leyti kjörið ár til nýskráninga vegna bættra efnahagshorfa.

Landsframleiðsla á fyrri helmingi þessa árs hefur aukist um 4,1% borið saman við fyrstu sex mánuði síðasta árs. Vöxtur einkaneyslu er kröftugur, kaupmáttur launa er í sögulegu hámarki og vergur sparnaður fer vaxandi. Fjöldi félaga á aðalmarkaði hefur hins vegar staðið í stað frá áramótum og útlit er fyrir að aðeins eitt félag – ol­íufélagið Skeljungur – verði skráð á aðalmarkaðinn á þessu ári. Þar fyrir utan voru hlutabréf Iceland Seafood International tekin til við­ skipta á First North síðastliðið vor.

Páll Harðarson, forstjóri Kauphallarinnar, segir skort á nýskráningum á árinu valda vonbrigðum, en að aðalskýringin á þeim skorti sé einfaldlega það að skráningar taka tíma.

„Mér finnst líklegt að Skeljungur verði eina aðalmarkaðsskráningin á árinu. Það veldur auðvitað vonbrigðum að það hafi ekki verið að koma fleiri félög inn á markaðinn. Ég hefði viljað sjá fleiri skráningar í ár í ljósi þess hve efnahagsástandið er gríðarlega gott. Einhverjir runnu úr okkar greipum – ef svo má að orði komast – og ákváðu að fara aðrar leiðir.

Ákvörðun um skráningu var þá frestað um sinn eða hlutafé selt án skráningar á markað. Hins vegar er staðan sú að nokkur félög sem stefndu á skráningu á þessu ári stefna enn á skráningu á nýju ári. Mér er ekki kunnugt um mörg dæmi þess að skráning hafi verið slegin alveg út af borðinu. Undirbúningsvinnan er einfaldlega að taka lengri tíma eins og stundum hefur verið.“

Pólitísk óvissa tefur skráningu

Páll sagði í samtali við Viðskiptablaðið síðastliðinn september að pólitísk óvissa í sambandi við alþingiskosningarnar í október hafi seinkað áformum einhverra fyrirtækja um skráningu.

„Mögulega hefur pólitíska óvissan frá því í vor seinkað áformum félaga um skráningu. Eitthvað voru menn að bíða eftir kosningum, en ég veit ekki hversu afgerandi það hefur verið. Það hefur alla vega ekki flýtt fyrir verkefnum eða virkað hvetjandi,“ segir Páll.

Páll segir ólíklegt að núverandi stjórnarmyndunarviðræður séu úrslitaatriði í nýskráningum fyrirtækja, en að pólitíska óvissan gæti hins vegar haft áhrif á skráningu íslensku bankanna.

„Það liggur ekkert fyrir um það hvaða stefna verður tekin varðandi söluna á bönkunum, en mér finnst það mjög ólíklegt að ríkið ætli að halda tveimur stórum bönkum í sinni eign sama hvernig pólitískir vindar blása.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .