Marel áætlar að kostnaður við skráningu félagsins á markað í Amsterdam muni nema 17,7 milljónum evra, tæplega 2,5 milljörðum króna. Verði umframsöluréttur nýttur að fullu í útboðinu hækkar kostnaður í 18,8 milljónir evra, eða 2,6 milljarða króna. Þetta kemur fram í skráningarlýsingu félagsins sem birt var í gærkvöldi. Kostnaðurinn nær yfir sölutryggingarþóknun, kostnað við lögbundnar tilkynningarskyldu og önnur gjöld.

Fjöldi fjármálafyrirtækja vinnur að útboðinu fyrir Marel. Alþjóðlegir umsjónaraðilar (e. Joint Global Coordinators) útboðsins og skráningarinnar í Amsterdam eru Citi og J.P. Morgan. Sameiginlegir sölutryggjendur (e. Joint Bookrunners) eru ABN Amro, ING og Rabobank. Sameiginlegir aðalumsjónaraðilar (e. Joint Lead Managers) og umsjónaraðilar almenns útboðs á Íslandi eru Arion banki og Landsbankinn. Þá eru STJ Advisors óháðir fjármálaráðgjafar Marel í tengslum við útboðið og skráninguna.

Áætlaður kostnaður við skráninguna byggir á því að verð í útboðinu samsvari miðju verðbili útboðsins, sem er 3,4 til 3,9 evrum á hlut. Marel hyggst bjóða 100 milljón nýja hluti til sölu sem samsvarar um 47 til 54 milljörðum króna samkvæmt umræddu verðbili. Þar af verða 90.909.091 nýir hlutir og allt að 9.090.909 hlutir verða gefnir út í tengslum við hefðbundinn valrétt til að mæta umframeftirspurn.

Sjóðir á vegum Blackrock og Credit Suisse Asset Management hafa skuldbundið sig til að kaupa í Marel fyrir 14 milljarða króna, sem samsvarar ríflega fjórðungi af heildarfjárhæð útboðsins.