Bernie Ecclestone, aðalsprauta Formúlu 1-kappakstursins, segir hugsanlegt að fyrirhugaðri skráningu móðurfélags keppninnar á markað í nýhöfnum mánuði verði frestað fram í október. Stærsti hluthafi félagsins er fjárfestingarsjóðurinn CVC Capital Partners og hafði hann vænst þess að fá skráningarlýsingu í hendur á þriðjudag.

Ecclestone segir hins vegar í samtali við breska dagblaðið Guardian aðstæður á evrusvæðinu - og reyndar á fjármálamörkuðum almennt - slíkar að betra sé að bíða en að haska sér um of.

„Fólk heldur að sér höndum og er tregt til að fjárfesta. Ef fólk er ekki að kaupa hlutabréf í fyrirtækjum sem hafa verið skráð á markað í 20 ár af hverju ætti það þá að fjárfesta í nýju félagi núna?“ spyr hann en væntir þess að félagið líti dagsins ljós á hlutabréfamarkaði fyrir áramót.

Fleiri bíða með skráningu á markað

Í Guardian er bent á að fleiri en Ecclestone hafi ákveðið að bíða í vari eftir því að óvissunni á fjármálamörkuðum linni. Það hafi skartgripasalinn Graff sömuleiðis gert. Stefnt var að því að skrá félagið á markað í Hong Kong í dag. Þær áætlanir hafa nú verið lagðar til hliðar að sinni. Sömu sögu er að segja um þrjú önnur fyrirtæki sem horfðu til skráningar á hlutabréfamarkað í Hong Kong og Singapore.

Ecclestone fylgdist með Facebook

Í viðtali Guardian við Ecclestone kemur fram að hann hafi fylgst með gangi bandaríska samfélagsmiðilsins Facebook á hlutabréfamarkaði. Hann hefur vægast sagt verið slæmur, enda gengi félagsins hrunið um 12%  frá fyrsta viðskiptadegi. Það var þvert á væntingar.

Ecclestone vill forðast sömu örlög. Hann bendir samt á að verðmiðinn á gengi hlutabréfa félagsins hafi verið út úr korti.

„Ég get ekki ímyndað mér hvernig þeir fundu verðið út,“ segir hann.