Samþykkt var á aðalfundi Icelandic Group [ IG ] á föstudag að afskrá félagið úr Kauphöllinni. Icelandic Group fetar þar með í fótspor Vinnslustöðvarinnar [ VNST ] sem síðastliðið haust óskaði eftir afskráningu. Bæði félögin munu kveðja Kauphöllina á þessu ári en í kjölfarið verða HB Grandi og Alfesca [ A ] einu félögin sem eftir eru í Kauphöllinni sem hafa tengingu við sjávarútveg.

Í Morgunkorni Glitnis kemur fram að sjávarútvegsfyrirtækjum hefur fækkað jafnt og þétt í Kauphöllinni undanfarin ár.

„Eins og kunnugt er voru það fyrst og fremst sjávarútvegsfyrirtæki sem sóttu um opinbera skráningu í  árdaga verðbréfaviðskipta hér á landi. Vegur sjávarútvegs í Kauphöllinni náði hámarki 1997 þegar um það bil 40% af markaðsverðmæti skráða fyrirtækja átti rætur sínar að rekja í sjávarútveg. Núna er Kauphöll Íslands hinsvegar ótvíræð fjármálakauphöll með yfirgnæfandi vægi fjármálafyrirtækja,“ segir í Morgunkorni.