Í Jólagarðinum í Eyjafirði er rómantísk og notaleg stemning fyrir utan jólahúsið og ekki verra þegar jólasnjórinn skreytir allt um kring. Hjónin Benedikt Ingi Grétarsson og Ragnheiður Hreiðarsdóttir hafa rekið Jólagarðinn frá upphafi og í ár halda þau átjándu jólin í Jólagarðinum. Í jólahúsinu sjálfu er hægt að versla flestallt sem tengist jólunum, skraut, sælgæti og mat.

Eplakofinn opnaður í garðinum

Húsið er á tveimur hæðum og þegar blaðamann bar að garði á laugardegi var erfitt að fóta sig vegna annríkis. Þegar gestir Jólagarðsins hafa skoðað og verslað fer næstum enginn út án þess að kaupa nokkrar karamellur sem eru ómótstæðilegar við innganginn. Benedikt segir flesta fara út með 4-5 karamellur í vasanum á leið út.

Fyrir utan jólahúsið, í garðinum sjálfum, var margt fólk að gæða sér á veitingum og spjalla saman. Það er óhætt að segja að jólaandinn hafi svifið yfir og það í októbermánuði, en húsið er opið allt árið. Í sumar opnuðu hjónin Eplakofann sem er lítið hús í Jólagarðinum. Þar er boðið upp á brjóstsykurshúðuð epli eða sykurepli og karamelluhúðuð epli. Eplin eru svo skreytt í regnbogans litum og heilla gesti og gangandi.

Nánar er fjallað um málið í Jólagjafahandbókinni. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum tölublöð hér .